Bíður örlaga sinna í Svíþjóð

Aðspurður hvort hann sé bjartsýnn á að það muni gerast …
Aðspurður hvort hann sé bjartsýnn á að það muni gerast segir hann reyna að halda í vonina. „Ég reyni að vera jákvæður og er það aðallega vegna vina minna sem hafa barist fyrir því að ég fái að snúa aftur,“ segir Eze .

Nígeríski flóttamaðurinn Eze Oka­for er enn í Svíþjóð eftir að lögmaður hans sótti um frest á brottvísun hans úr landinu. Upphaflega átti hann að fara frá Svíþjóð 1. júní síðastliðinn en leyfið var framlengt en ekki er vitað hversu mikið. Eze var vísað úr landi í síðustu viku en hann kom fyrst til Íslands fyrir um fjórum árum síðan eftir að hafa flúið hryðjuverkasamtökin Boko Haram í Nígeríu.

Eze hefur sótt um dvalarleyfi af mannúðarástæðum á Íslandi en hefur ekki fengið svar.

Í samtali við mbl.is segir Eze sér ekki líða vel. Hann sé slappur og óvissan um næstu skref valdi honum kvíða. Hann dvelur nú í herbergi í úthverfi Stokkhólms og bíður örlaga sinna.

„Íslensk vinkona mín kom mér í samband við vin sinn hér og ég fékk að gista hjá honum,“ segir Eze. „En ég á erfitt með svefn.“

Eins og fyrr segir bjó Eze hér á landi í fjögur ár en hælisumsókn hans var þrátt fyrir það aldrei tekin fyrir. Þó segist hann hafa lifað góðu lífi á Íslandi og þrái ekkert heitar en að snúa aftur.

Aðspurður hvort hann sé bjartsýnn á að það muni gerast segist hann reyna að halda í vonina. „Ég reyni að vera jákvæður og er það aðallega vegna vina minna sem hafa barist fyrir því að ég fái að snúa aftur,“ segir Eze .

Hann segist alls ekki vilja fara aftur til Nígeríu þar sem líkur eru á því að liðsmenn Boko Haram muni handsama hann. Segir hann þá leynast bæði innan lögreglunnar og stjórnvalda en bróðir hans var myrtur af liðsmönnum samtakanna. Eze var sjálfur særður á höfði af liðsmönnum Boko Haram en þeir hafa verið á eftir fjölskyldu hans eftir að hann flúði land.

„Tilhugsunin um að fara aftur til Nígeríu er skelfileg. Ég er hræddur við hvað myndi bíða mín þar.“

Fyrri frétt mbl.is: Flúði undan Boko Haram til Íslands

Fyrri frétt mbl.is: Með hælisumsókn í kappi við tímann

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert