María Ólafsdóttir heilsugæslulæknir er á leið til Grikklands á vegum Rauða krossins á Íslandi til að bregðast við neyðarástandi í norðurhluta landsins við landamæri Makedóníu. Þar er um þessar mundir mikill fjöldi flóttamanna, sem flestir hafa flúið vopnuð átök í Sýrlandi og Írak.
Straumur flóttafólks hefur legið í gegnum Grikkland á undanförnum misserum en síðan í febrúar á þessu ári hefur myndast stífla við landamæri Makedóníu eftir að síðarnefnda landið ákvað að loka landamærum sínum. Um 10 þúsund flóttamenn eru nú staddir í bænum Idomeni og um 10 þúsund fleiri í nærliggjandi bæjum.
Í fréttatilkynningu kemur fram að María muni starfa í ERU-neyðarteymi finnska og þýska Rauða krossins sem mun sinna almennri heilsugæslu í bæjunum Cherso og Nea Kevala þar sem er talið að 8000 skjólstæðingar þurfi á aðstoð að halda. Neyðarteymið bregst þar með við kalli Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) um aðstoð við flóttafólk við landamæri Grikklands og Makedóníu.
Er þetta í annað sinn sem sendifulltrúi Rauða krossins starfar í Grikklandi, en Páll Biering geðhjúkrunarfræðingur starfaði um sjö vikna skeið í Idomeni á haustmánuðum 2015. Einnig er rétt að geta þess að síðastliðinn vetur hefur Rauði krossinn á Íslandi, með dyggri aðstoð utanríkisráðuneytisins og íslensks almennings, veitt um 38 milljónum íslenskra króna til hjálparstarfs við flóttafólk í Grikklandi.
Þetta er önnur sendiför Maríu fyrir Rauða krossinn, en áður starfaði hún á færanlegum heilsugæslustöðvum (Mobile Health Clinics) í Dohuk í Írak á vegum Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC).