Svartaþoka var yfir höfuðborginni í nótt og urðu borgarbúar eflaust margir hennar varir í morgun. Ljósmyndari mbl.is var á ferðinni og náði nokkrum mögnuðum myndum af fallegu sjónarspili í borginni.
„Þetta gerist þegar mjög hlýtt loft flæðir yfir kaldan sjó. Þá þéttist rakinn í loftinu og myndar litla dropa sem verða að þoku. Þokan heldur sig að mestu yfir sjónum en kemur sums staðar inn á ströndina, sérstaklega að kvöld- og næturlagi,“ segir Theodór Freyr Hervarsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Borgarbúar þurfa því ekki að óttast að um mengun eða svifryk sé að ræða þar sem styrkur svifryks mælist ekki yfir heilsuverndarmörkum að sögn Svövu Svanborgar Steinarsdóttur hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar. Heilbrigðiseftirlitið fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til.