Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ræddi þær aðdróttanir sem Framsóknarflokkurinn hefur orðið fyrir undanfarna mánuði á miðstjórnarfundi flokksins fyrr í dag. Þar ræddi hann hvernig umræðan hefur haft áhrif á sig og sína fjölskyldu og var ræða hans á mun persónulegri nótum en áður.
„Þó ég hafi yfirleitt og alltaf talað um okkur þá mun ég líka að þessu sinni tala um mig, konuna mína og fjölskyldu, einkamálefni og jafnvel tilfinningar.“ Því næst ræddi hann árangur ríkisstjórnarinnar á síðustu þremur árum.
Hann ræddi við gesti um það hvernig Framsóknarflokkurinn hefur orðið fyrir aðdróttunum og hann sjálfur, þó ekki á grundvelli málefnanna. „Frá því að ég hóf þátttöku í stjórnmálum hef ég búið við það að fólk hefur beint spjótum sínum að persónu minni, yfirleitt með kenningum sem standast ekki skoðun.“
Næst ræddi hann um viðtal sitt við sænska ríkisútvarpið og hvernig viðtalið hafið verið sett á fót til að koma höggi á Framsóknarflokkinn í gegnum sig. „Mér líður hræðilega yfir að hafa ekki séð fyrir þessari árás.“ Þá sagði hann verst að vita af því álagi sem fjölskylda sín og tengdafjölskylda hafði orðið fyrir vegna málsins.
Þá fór Sigmundur Davíð yfir þær skuldbindingar sem samið var um í stjórnarsáttmála við Sjálfstæðisflokkinn og sagði það verkefni flokksins að klára þau verkefni sem hafin eru. Hann sagði flokkinn tilbúinn að ganga til kosninga hvenær sem er en lagði áherslu á að klára fyrst þau verkefni sem samið var um.
Ræðu formannsins var fagnað með standandi lófataki af fundargestum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fyrst kosinn formaður Framsóknarflokksins á flokksþingi þann 18. janúar 2009. Hann var síðast endurkjörinn á flokksþingi þann 11. apríl 2015.
Samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Framsóknarflokksins heldur flokkurinn flokksþing annað hvert ár. Skylt er þó að boða til flokksþings ef meirihluti kjördæmisþinga óskar þess. Á flokksþingi eru meginstefnur flokksins í landsmálum til næstu tveggja ára settar og flokknum sett lög. Þar er einnig æðsta stjórn flokksins kosin, það er formaður, varaformaður og ritari.