Gott að eiga mömmu að

Guðmunda Ólöf Jónasdóttir, eða Mumma Lóa, og Hildur Karen Aðalsteinsdóttir …
Guðmunda Ólöf Jónasdóttir, eða Mumma Lóa, og Hildur Karen Aðalsteinsdóttir settu þrjú Íslandsmet. Ljósmynd/Hörður J. Oddfríðarson

Átta íslenskir sundmenn fögnuðu samtals 17 metum á Evrópumóti garpa í sundi í Lundúnum um liðna helgi. Þar á meðal settu mæðgurnar Guðmunda Ólöf Jónasdóttir, eða Mumma Lóa, úr UMSB og Hildur Karen Aðalsteinsdóttir úr ÍA þrjú Íslandsmet í sínum flokkum.

„Þetta er svo gaman, svo skemmtilegt að vera með þessu fólki,“ segir Mumma Lóa, sem hefur víða skilið eftir sig sundspor og setti nú tvö met í 65-69 ára flokki, synti 50 m skriðsund á 44,24 sekúndum og 100 m skriðsund á 1.35,90.

Mumma Lóa ólst upp á Ísafirði og keppti á Íslandsmótum sem unglingur. Eftir að hún gifti sig fluttu þau til Bolungarvíkur og þar stofnaði hún ásamt öðrum sunddeild eftir að laugin var byggð og vann að uppgangi sundsins. Eftir að fjölskyldan flutti til Óðinsvéa í Danmörku byrjaði hún að kenna þar ungbarnasund og sundleikfimi auk þess sem hún var sundþjálfari. Síðan lá leiðin í Borgarnes, þar sem hún hefur synt nánast á hverjum morgni. Ingimundur Ingimundarson fékk hana til þess að taka þátt í Norðurlandagarpamóti í Hafnarfirði 2003 og þá opnaðist nýr heimur.

Aldurinn engin fyrirstaða

„Ég sá að fólk getur gert ýmislegt burtséð frá aldri,“ rifjar Mumma Lóa upp og bendir sérstaklega á fullorðið fólk í sundfimi og dýfingum í því sambandi. Hún bætir við að hún hafi tekið þátt í Íslandsmóti garpa frá 2008 og Landsmóti UMFÍ 50+ frá 2010. „Ég hef kynnst svo góðu fólki á þessum mótum og úr varð að ég fór á Norðurlandamót garpa í Færeyjum í fyrra og svo á Evrópumótið núna. Það var mikil áskorun að taka þetta skref og reynslan er ótrúleg upplifun.“

Íslandsmetið í 50 m skriðsundi í 45-49 ára flokki féll þegar Hildur Karen synti á 34,30 sekúndum. „Ég er fyrst og fremst stolt af mömmu í þessari stöðu,“ segir hún. „Ég fylgi henni og hef alla tíð gert. Hún bað mig um að koma með sér út og þá gerði ég það.“

Hildur Karen, sem er fyrrverandi unglingalandsliðskona í sundi, hefur líka verið með annan fótinn í vatni alla tíð, er með sundskóla á Akranesi og kennir öllum aldursflokkum sund. Hún tók fyrst þátt í garpamóti 2008 en þetta var fyrsta mótið erlendis sem garpur. „Það er mikilvægt að setja sér markmið og þá hefur maður eitthvað til að stefna að,“ segir hún. „Þetta er hluti af því, auk þess sem félagsskapurinn er sérlega góður og hvetjandi. Það er dýrlegt að eiga mömmu að og eiga þessar stundir saman.“

Hörður ómetanlegur

Yfir 10.000 manns tóku þátt í garpamótinu í Lundúnum. Íslensku keppendurnir voru Finni Aðalheiðarson og mæðgurnar Ragna María Ragnarsdóttir og Þórunn Kristín Guðmundsdóttir úr Ægi, Hildur Karen Aðalsteinsdóttir og Kári Geirlaugsson úr ÍA, Guðmunda Ólöf Jónasdóttir úr UMSB og Karen Malmquist úr Óðni. Sigurður Óli Guðmundsson úr SH var yfirdómari og Gunnar Viðar Eiríksson úr Óðni almennur dómari. Hörður J. Oddfríðarson, formaður Sundsambands Íslands, var tæknifulltrúi. „Við sundfólkið vorum á eigin vegum en Hörður var vakinn og sofinn yfir okkur, passaði upp á að okkur vanhagaði ekki um neitt, var í raun ómetanlegur,“ segja mæðgurnar, sem vilja sjá enn fleiri Íslendinga á næstu mótum. Heimsmeistaramót garpa verður í Búdapest á næsta ári, í beinu framhaldi af HM50. Næsta Evrópumót verður svo í Slóveníu árið 2018.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert