Komið að þolmörkum yfir hásumarið

Hellulaug er í flæðamálinu við Flókalund.
Hellulaug er í flæðamálinu við Flókalund. Af vef Flókalundar

Með auknum straumi ferðamanna hingað til lands hefur aðsókn í heitar náttúrulaugar vaxið gríðarlega. Í fjölmörgum ferðabókum og -bloggum um Ísland eru ferðamenn hvattir til að baða sig í slíkum laugum víðs vegar um landið, en á sumum stöðum er aðsóknin komin að þolmörkum.

„Þetta er búið að fara stigvaxandi síðustu ár og það má segja að þetta sé komið upp fyrir þolmörkin yfir hásumarið,“ segir Guðni Ólafsson, yfirmaður áhaldahúss Tálknafjarðarhrepps, um aðsókn í Pollinn í Tálknafirði.

Erfitt að endurnýja þegar ekki er rukkað ofan í Pollinn

Pollurinn er nokkru utan við þorpið og uppi í hlíð. Er hann þrískiptur og eru þar tveir setpottar og einn dýpri pottur. Búningsklefi er á staðnum og sér hreppurinn um viðhald á staðnum. Guðni segir að tími sé kominn til að endurnýja og gera upp laugina en á meðan ekki sé rukkað ofan í hana sé erfitt að ráðast í framkvæmdir.

„Ég er einn af þessum mönnum sem vilja láta borga fyrir þjónustu, hvort sem það eru Íslendingar eða erlendir ferðamenn. Ég þarf að gera það þegar ég ferðast erlendis og finnst það sjálfsagt, en svo virðist ekki mega nefna þetta hér á landi,“ segir hann og bætir við að reynt sé að halda svæðinu snyrtilegu þrátt fyrir að ekki komi gjald fyrir.

Nota búningsklefana fyrir gistiaðstöðu

Guðni segir að umgengni á svæðinu sé misjöfn en sumir gangi skelfilega um. Þá séu aðrir sem noti búningsklefana fyrir gistiaðstöðu. „Klefarnir eru um fjórir til fimm fermetrar hvoru megin og ég hef einu sinni komið þarna og séð tólf manns sofandi þarna inni,“ segir Guðni og bætir við að það sé ekki óalgeng sjón að sjá ferðamenn hreiðra um sig þar. „Það eru sennilega ekki nema þrír dagar síðan ég sá síðast fólk gista þarna inni.“

Þá segir hann aðra koma sér fyrir með prímus og elda inni í klefunum. „Þetta er alveg lygilegt en fólk er að nýta sér að það sé upphitað þarna inni,“ segir hann. „Þegar maður fer þarna til að tína rusl sér maður stundum eitthvað sem maður á ekki að sjá. Það er svolítið sérstök menning í kringum þessar náttúrulaugar.“

Fjöldi fólks leggur leið sína í Pollinn á Tálknafirði.
Fjöldi fólks leggur leið sína í Pollinn á Tálknafirði. mbl.is/Ingileif

Misjöfn umgengni eftir stöðum

Eins og mbl.is sagði frá fyrir nokkru hefur ferðamönnum sem lagt hafa leið sína að heitri á í Reykjadal við Hveragerði til að baða sig fjölgað gríðarlega síðustu tvö ár. Á sama tíma hefur umgengni versnað töluvert, og hefur fólk skilið eftir ýmiss konar rusl þar ásamt því að hafa gert þarfir sínar úti í náttúrunni. Þá hafa fleiri heitar laugar orðið fyrir barðinu á slæmri umgengni ferðamanna og má þar nefna Hrunalaug í Hrunamannahreppi, en eins og mbl.is fjallaði um síðasta sumar hafa eigendur landsins íhugað að fara með jarðýtu á laugina þar sem ekki gangi að halda ferðamönnum frá með öðrum aðferðum.

Ekki er sömu sögu að segja um umgengni við Hellulaug, litla laug í flæðarmálinu stutt frá Flókalundi. Steinunn Hjartardóttir, einn af hóteleigendum í Flókalundi, segir að fjöldi fólks baði sig í Hellulaug á hverjum degi Engin búningsaðstaða er hjá lauginni, en Steinunn segir að þrátt fyrir það sé umgengni mjög góð. Gerður hafi verið göngustígur að lauginni og henni sé haldið vel við, og ferðamenn virði það með því að ganga vel um.

Nokkur hundruð manns leggja leið sína í Reykjadal á degi …
Nokkur hundruð manns leggja leið sína í Reykjadal á degi hverjum. ljósmynd/Iceland Activities

Rútur fullar af ferðamönnum koma á hverjum degi

Helena Eiríksdóttir frá Ási í Hrunamannahreppi sagði það hafa verið fjölskyldunni til happs að Gamla laugin, eða Secret Lagoon, á Flúðum hefði verið tekin í gegn og gerð að ferðamannastað. Um er að ræða elstu laug landsins, en hún var gerð árið 1891 og er því 125 ára gömul. Lauginni var lokað árið 1947 og hafði ekki verið í notkun þar til fyrir tveimur árum, þegar Björn Kjartansson, eigandi Secret Lagoon, opnaði hana að nýju. 

Gömlum gróðurhúsum við laugina hefur verið breytt í baðhús og lagðir hafa verið pallar og göngustígar. Í næsta nágrenni eru hverir og gýs einn þeirra, Litli Geysir, á nokkurra mínútna fresti. Björn segir að fjöldi ferðamanna heimsæki laugina á degi hverjum, en rútur fullar af ferðamönnum koma þangað alla daga.

Gamla laugin, eða Secret Lagoon, er sú eina af ofantöldum laugum sem gerð hefur verið ferðaþjónusta í kringum, en það kostar 2.500 krónur að baða sig í henni. Með þessu móti er þó dregið úr slæmri umgengni og að sama skapi er lauginni haldið vel við að sögn Björns.

Gamla laugin, eða Secret Lagoon, á Flúðum, er afar vinsæll …
Gamla laugin, eða Secret Lagoon, á Flúðum, er afar vinsæll ferðamannastaður. Af Facebook-síðu Gömlu laugarinnar

Frétt mbl.is: Fjölmargir baða sig í heitri á

Frétt mbl.is: Íhugaði að fara með jarðýtu á laugina

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert