Nokkrir fluttir á Landspítala

Búið er að loka Hvalfjarðargöngum. Mynd úr safni.
Búið er að loka Hvalfjarðargöngum. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Bílslys varð í Hvalfjarðargöngunum um klukkan tvö í dag þegar fólksbífreið og jeppabifreið skullu saman. Sjónarvottur segir í samtali við mbl.is slysið vera alvarlegt. Göngin verða lokuð í nokkrar klukkustundir samkvæmt upplýsingum frá Speli.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna slyssins. Fimm sjúkrabílar eru á leiðinni á vettvang, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, auk tækjabíls. Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu gat ekki gefið upp fjölda slasaðra en sagði þá vera „þónokkra“.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vesturlandi er lögregla á leið á staðinn og getur ekki veitt frekari upplýsingar að svo stöddu.

Uppfært kl. 14:19

Marínó Tryggvason, rekstrarstjóri og öryggisfulltrúi Spalar, segir nánast öruggt að göngin verði lokuð í nokkrar klukkustundir vegna slyssins en kvaðst ekki hafa frekari upplýsingar um slysið.

Uppfært kl. 14:21

Í tilkynningu sem lögreglan hefur sent frá sér kemur fram að tilkynning um umferðaróhapp eða slys niðri í Hvalfjarðargöngum hafi borist kl. 13:55 og vegurinn þar sé lokaður í báðar áttir. Hægt sé að komast hjáleið um Hvalfjörð.

Sjúkrabílar, tækjabílar og lögregla eru á leið á vettvang. Búist er við að vegurinn verði lokaður í nokkurn tíma.

Uppfært kl. 14:27

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna slyssins og er hún lent á vettvangi. Þyrlan var í Faxaflóa vegna hátíðarhalda í tengslum við sjómannadaginn svo hún var fljót til viðbragðs.

Uppfært kl. 14:38

Ekki liggur nákvæmlega fyrir hversu margir eru slasaðir en samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu eru þeir „þónokkrir“.

Uppfært kl. 14:55

Verið er að flytja fjóra eða fimm slasaða á Landspítala, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. Lögregla fór á undan sjúkrabílum og lokaði fyrir umferð til þess að ryðja veginn fyrir sjúkraflutningum.

Uppfært kl. 15:00

Marínó Tryggvason, rekstrarstjóri og öryggisfulltrúi Spalar, segir göngin verða lokuð áfram einhverjar stundir, ómögulegt sé að segja til um hvenær þau verði opnuð aftur. 

Tvær bifreiðar skullu saman, önnur þeirra var fólksbifreið og hin jeppi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert