Stefnir enn á Evrópusambandið

Oddný Harðardóttir, nýr formaður Samfylkingarinnar.
Oddný Harðardóttir, nýr formaður Samfylkingarinnar.

Nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar telur það gæfuspor fyrir íslenska þjóð að ganga í Evrópusambandið en ekki verður sótt aftur um aðild án þess að spyrja þjóðina fyrst. Þetta sagði Oddný G. Harðardóttir í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Jafnaðarstefuna sagði hún „bestu stefnu á jörðinni“.

Páll Magnússon, stjórnandi þáttarins, sagði Samfylkinguna vera hnípinn flokk í vanda. Hann mæltist nú aðeins með 7% fylgi í skoðanakönnunum og væri minnsti jafnaðarmannaflokkurinn á Norðurlöndunum. Oddný viðurkenndi að þingflokkur Samfylkingarinnar hefði ekki verið í sínu allra besta formi undanfarið, þó að hann hefði unnið vel saman þegar á reyndi, en landsfundur flokksins um helgina hefði verið vendipunktur. Leiðin lægi nú upp á við.

Lagði Oddný áherslu á að horfa fram á veginn í stað þess að halda áfram naflaskoðun á mistökum sem flokkurinn hefði gert til að koma sér í núverandi stöðu. Sagðist hún ekki sammála öllu því sem forveri hennar í embætti formanns, Árni Páll Árnason, hefði tiltekið sem mistök í bréfi sem hann sendi flokksmönnum.

„Auðvitað gerðum við mistök. Hver hefði ekki gert það? Við vorum í fordæmalausri stöðu,“ sagði Oddný um verk flokksins í síðustu ríkisstjórn.

Það væri hins vegar mun fleira sem hefði fyllt hana gleði og stolti. Sú stjórn hefði unnið þrekvirki í efnahagsmálum og unnið það án þess að stóru kerfi samfélagsins brotnuðu.

Oddný vildi ekki kannast við að flokkurinn hefði færst til vinstri með kjöri hennar. Engum hafi tekist að skýra út fyrir henni hver munurinn væri á henni og svonefndum frjálslyndum jafnaðarmönnum.

„Ég er bara jafnaðarmaður og ég held mig við það,“ sagði hún.

Hagur almennings og fyrirtækja vænkist með evru

Páll spurði formanninn út í ályktanir landsfundarins og benti á að hvergi væri minnst þar á aðild að Evrópusambandinu, sem hefur verið eitt helsta baráttumál flokksins undanfarin ár. Oddný sagði þá stefnu ekki horfna en staðan á Íslandi væri hins vegar þannig að ekki yrði haldið áfram með umsóknina nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. 

„Ég vil gera það, já,“ svaraði Oddný þegar Páll spurði hana hvort hún vildi enn ganga í ESB. Það væri fyrst og fremst vegna myntbandalagsins, þar sem Ísland tæki hvort eð er upp 75% reglna ESB í gegnum EES-samninginn.

Páll spurði hvort krónan hefði ekki verið hluti af lausninni eftir efnahagshrunið en Oddný spurði á móti hvort það hefði átt sér stað með evru. Það væri ekki sanngjarnt að gengi krónunnar væri veikt til að fá jafnvægi í fjármál landsins en það væri almenningur sem þyrfti að bera allan kostnað af því. Kjör almennings og fyrirtækja myndu batna með evru.

Oddný neitaði því að það hefðu verið mistök af hálfu síðustu ríkisstjórnar að sækja um aðild án þess að bera það undir þjóðina fyrst. Ekkert ríki hefði haldið þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir umsókn en öll hefðu gert það um samning við sambandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka