Þriðji fundur samstarfshóps sem á að taka saman upplýsingar um ástand mála í Mývatni fór fram í dag. Hópurinn var skipaður af umhverfis- og auðlindaráðherra um miðjan síðasta mánuð.
Gert er ráð fyrir því að hópurinn skili samantekt til ráðherra fyrir 17. júní næstkomandi.
Að sögn Jóns Óskars Péturssonar, sveitarstjóra Skútustaðahrepps, hafa fundirnir gengið ágætlega fyrir sig. Enn séu nokkrir dagar til stefnu og ætlunin sé að klára samantektina í tæka tíð.
Skorað hefur verið á ríkisstjórnina að grípa til aðgerða til að vernda lífríki Mývatns og Laxár sem sé í bráðri hættu vegna næringarefnaauðgunar.
Hlutverk hópsins er að draga saman bestu fáanlega þekkingu um:
- Ástand Mývatns og Laxár og lífríkis þess og þann vanda sem við blasir þar sérstaklega nú.
- Hverjar séu helstu uppsprettur næringarefna sem berast í Mývatn og líklegar orsakir þess vanda sem nú er við að eiga.
- Hvaða aðgerðir koma til greina til að reyna draga úr ofauðgun og bakteríublóma í vatninu.
- Hvernig unnt sé að bæta vöktun og upplýsingagjöf um ástand vatnsins og lífríki þess.
Í samstarfshópnum eiga sæti:
- Hugi Ólafsson formaður, umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
- Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn.
- Bragi Finnbogason, formaður stjórnar Veiðifélags Laxár og Krákár.
- Jón Óskar Pétursson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps.
- Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun.
- Þorkell Lindberg Þórarinsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðausturlands.
- Hjördís Finnbogadóttir, fulltrúi Fjöreggs – félags um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit.
- Helgi Héðinsson, formaður Veiðifélags Mývatns.
Stefán Einarsson, sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, vinnur með hópnum.