„'68-kynslóðin með snjallsíma“

Sara Mansour, formaður ungmennaráðs UNICEF.
Sara Mansour, formaður ungmennaráðs UNICEF. mbl.is/Björn Már

„Í ófá skipti höfum við í ungmennaráði UNICEF bent á fáránleika þess að þingmenn setja lög án samráðs við þá sem lögin hafa mest áhrif á. Má þar nefna styttingu framhaldsskóla og núna síðast LÍN,“ sagði Sara Mansour, formaður ungmennaráðs UNICEF á Íslandi, á opnum fundi Innanríkisráðuneytisins í dag um stöðu mannréttinda. 

Sara gerði netaktívisma að umtalsefni sínu í ræðu sinni og fjallaði um það hvernig hægt væri að heyra skoðanir ungs fólks á samskiptamiðlum. Hún hóf ræðu sína á að fjalla um það hvernig hún fór úr því að leysa krossgátur og horfa á Leiðarljós á daginn yfir í það að lesa sér til um mannréttindi og stöðu ungs fólks í heiminum, einmitt með aðstoð internetsins. 

Úr Leiðarljósi í mannréttindabaráttu

„Ég var fengin til að halda örstuttan fyrirlestur um mannréttindi frá sjónarhorni ungs fólks. Ég er kannski ekki besti fulltrúi ungmennskunnar, þar sem ég hef aldrei verið sérlega ung. Í almennum skilningi orðsins. Sem barn eyddi ég yfirleitt deginum í að horfa á Leiðarljós og leysa krossgátur. Margir vilja halda því fram að ég hafi fæðst miðaldra í anda og sé það rétt er það kannski viðeigandi að ég standi fyrir framan hóp af fólki og þykist vita hvað sé ungmennum fyrir bestu,“ sagði Sara.

„En ég ætla núna ekki að tala um lélega stjórnmálaþátttöku ungs fólks, vanda varðandi geðheilbrigðismál, frelsun geirvörtunnar, málefni hinsegin barna, fatlaðra barna, fósturbarna, börn innflytjenda né önnur mál sem ungmenni landsins hafa ötullega barist fyrir á undanförnum misserum.“

„Allra síst ætla ég að tala um alvarlega stöðu atvinnumála og húsnæðismarkaðs sem ungt fólk stendur frammi fyrir. En jafnframt ætla ég að tala um þetta allt saman. Ég ætla að tala um það hvernig þjóðfélagsþegnar eins og þið geta nálgast málefni sem brenna á ungu fólki, ég ætla að tala um netaktivísma.“

Sara segir hugtakið netaktívisma afar gagnsætt, en það megi skilgreina sem notkun samfélagsmiðla í þeim tilgangi að hraða samskiptum og flæði upplýsinga á milli almennra borgara, eða til að bera efni frá samtökum til félaga samtakanna.

Sara á fundinum í dag.
Sara á fundinum í dag. mbl.is/Björn Már

„Við erum öll meðvituð um hættur netheimanna, sérstaklega þegar kemur að börnum. Það er varla hægt að vafra um netið án þess að finna fyrir ofbeldisfullt eða klámfengið efni. Sífellt yngri börn eru farin að spila ávanabindandi leiki sem hafa óþekkt áhrif á heilastarfsemi þeirra. Fáfrótt fólk fær vettvang fyrir hatursorðræðu sína. Málkunnáttu yngri kynslóðarinnar fer hrakandi og tölvuskjárinn skapar fjarlægð sem bitnar á samskiptahæfni okkar allra.“

„En ég vona að við séum einnig öll meðvituð um dásemdir veraldarvefsins og nytsemi hans. Til dæmis þegar þegar RÚV sveik þjóðina og hætti að sýna Leiðarljós gat ég auðveldlega gúgglað hvort Reva Shayne sneri aftur til Springfield,“ sagði Sara og uppskar kátínu fundargesta.

Allir finna sér eitthvað við hæfi á netinu

Hún segir að öll ungmenni geti fundið önnur ungmenni með svipuð áhugamál á netinu. 

Hvort sem einstaklingur hefur áhuga á blómarækt, mótorsport, stjórnmálum eða tísku getur hann sameinast öðrum áhugamönnum í gegnum internetið. Ég gleymi því aldrei þegar heimur jafnréttissinnaðra ungmenna opnaðist mér. Allt fram að því hafði ég talað fyrir jafnrétti og félagslegum jöfnuði fyrir daufum eyrum og var satt best að segja farin að halda að ég væri ein í heiminum. Það var mjög einmanalegt. En það breyttist fyrir fáeinum árum þegar ég sá bloggfærslu jafnaldra míns frá Pakistan sem fjallaði um kvenréttindi. Til hliðar var önnur færsla frá ungum dreng í Michigan sem skrifaði um upplifun sína af byssuofbeldi.“

„Fyrir neðan voru athugasemdir frá krökkum alls staðar að sem höfðu skoðanir á færslunum. Skyndilega var ég ekki lengur einmana. Næstu vikur las ég hundruð greina eftir hina nýju vini mína.“

Netsamfélög spretta upp innanlands

Segir hún samfélagsmiðlana hafa opnað heim fréttaflutnings sem almennir fjölmiðlar sinni ekki.

Fréttir utan úr heimi bárust mér samdægurs. Viðtöl og samræður sem höfðu aldrei verið sýndar í fréttatímum. Ég frétti af stjórnmálaframboðum fólks sem ég hafði aldrei heyrt um og fræddist um umhverfishryðjuverk í fátækum ríkjum sem venjulegir fréttamiðlar höfðu engan áhuga á Ég gleypti í mig alls konar upplýsingar og notaði þær til að koma á framfæri skoðunum mínum í daglegu lífi. Loksins hafði ég heimildir og vitneskju um allt sem ég hafði að segja. Þessir krakkar hafa kennt mér að velja orrustur og rökræða og tileinka mér nýjar hugmyndir. Við erum samfélag alþjóðlegra ungmenna.“

Samskiptamiðlar er vinsæll vettvangur fyrir ungt fólk til að tjá …
Samskiptamiðlar er vinsæll vettvangur fyrir ungt fólk til að tjá sig. AFP

Segir hún að með samfélagsmiðlum hafi einnig sprottið upp lítil slík netsamfélög innanlands.

„Núna koma upp svipuð samfélög á litla Íslandi. Ég hef fylgst með þeim stækka og dafna. Ég hef séð eina setningu eða eina mynd [á netinu] verða að byltingu. Ég hef séð félög stofnuð og kröfur settar fram um sanngjarnara þjóðfélag. Við tjáum okkur um málefni líðandi stundar og erum órædd við að hafa skoðanir,“ segir Sara og setur hreyfingu ungmenna svo í sögulegt samhengi með orðunum:

„Við erum '68-kynslóðin með snjallsíma. Það er kúl að vera samfélagslega meðvitaður.“

Fylgist með unga fólkinu á netinu

Hvatti hún viðstadda á fundinum til þess að notfæra sér netið og skoða hvað ungt fólk hefði fram að færa þar. 

„Þið getið nýtt ykkur netið. Þið getið skoðað samfélagsmiðla og séð hvað skiptir ungt fólk máli hverju sinni. Það sem skiptir okkur máli er það sem við tölum um. Hagsmunasamtök minnihlutahópa sleppa reynslu sinni af mannréttindum út í netheima svo við hin getum deilt því og rætt um það. Við þurfum ekki að veifa mótmælaskiltum á Austurvelli heldur myllumerkjum á Twitter. Því það er kalt úti og tilgangslaust að standa með pappírssnifsi þegar maður getur sagt stjórnvöldum til syndanna frá stofusófanum. Upplýsingarnar hafa aldrei verið nær okkur. Og það er netaktivísmi,“ sagði Sara að lokum.

„Í ófá skipti höfum við í ungmennaráði UNICEF bent á …
„Í ófá skipti höfum við í ungmennaráði UNICEF bent á fáránleika þess að þingmenn setja lög án samráðs við þá sem lögin hafa mest áhrif á. Má þar nefna styttingu framhaldsskóla og núna síðast LÍN,“ sagði Sara. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert