Frakkar rannsaka þyrluslysið á Íslandi

Þyrla Ólafs Ólafssonar eftir að hún brotlenti fyrir austan fjall.
Þyrla Ólafs Ólafssonar eftir að hún brotlenti fyrir austan fjall. mbl.is/Árni Sæberg

Frönsk rannsóknarnefnd tekur þátt í rannsókn Rannsóknarnefndar samgönguslysa á tildrögum þyrluslyssins sem varð á Hengilssvæðinu í síðasta mánuði.

Að sögn Þorkels Ágústssonar, rannsóknarstjóra flugsviðs nefndarinnar, hefur framleiðsluríki loftfarsins rétt á þátttöku í rannsókninni samkvæmt alþjóðlegum sáttmála og hefur franskur fulltrúi komið að henni hér á landi. 

Búið er að taka viðtöl við einhverja af þeim fimm sem lentu í slysinu og er viðtölunum ekki lokið, samkvæmt Þorkeli.

„Rannsókninni miðar ágætlega áfram,“ segir Þorkell og bætir við að allt sé í eðlilegum farvegi.

Spurður út í tildrög slyssins segir hann að ekki sé hægt að segja neitt um þau að svo stöddu.

Skýrslutökur hjá lögreglunni á Suðurlandi

Skýrslutökur eru í gangi þessa dagana hjá lögreglunni á Suðurlandi vegna þyrluslyssins. Þar hefur verið rætt við alla fimm einstaklingana sem lentu í slysinu, þar á meðal Ólaf Ólafsson, aðaleiganda Samskipa, en skýrslutökunum er ekki lokið.

Tveir Finnar og einn Dani voru á meðal þeirra sem sátu í þyrlunni. Þeir hafa allir flogið til síns heima síðan slysið varð en komið aftur til Íslands í skýrslutökur.

Í misgóðu ásigkomulagi

Fimmmenningarnir eru allir komnir á ról og farnir af sjúkrahúsi en eru í misgóðu ásigkomulagi, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi.

Mbl.is hefur áður greint frá því að Ólafur hafi meiðst á hálsi og hrygg. Daninn og flugmaður þyrlunnar þurftu að gangast undir aðgerð.

Ólafur og flugmaðurinn voru með erlendu gestina í útsýnisflugi þegar óhappið varð en ætlunin var að lenda aftur í Reykjavík að því loknu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert