Ríkir almannahagsmunir eru til staðar fyrir því að stöðva kjaradeilu Félags íslenskra flugumferðarstjóra gagnvart Isavia til að tryggja þá hagsmuni sem eru í húfi segir í lagafrumvarpi innanríkisráðherra um kjaramál flugumferðarstjóra, sem lagt hefur verið fram á Alþingi.
Tekið er fram í frumvarpinu, að áhrif vinnudeilunnar á rekstur íslenskrar ferðaþjónustu og orðspor séu mikil.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra kynnti frumvarpið fyrst á fundi ríkisstjórnarinnar sem fór fram í morgun vegna deilunnar.
Með frumvarpinu er lagt til bann við verkfallsaðgerðum og frekari vinnustöðvunum eða öðrum aðgerðum sem er ætlað að knýja fram aðra skipan kjaramála en frumvarpið nær til vegna kjaradeilu Samtaka atvinnulífsins og Félags íslenskra flugumferðarstjóra. Þá er lagt til að hafi aðilar ekki undirritað kjarasamning fyrir 24. júní 2016 skuli innanríkisráðherra skipa þrjá aðila í gerðardóm sem skal fyrir 18. júlí 2016 ákveða kaup og kjör þeirra félagsmanna sem frumvarpið nær til. Kostnaður af starfi gerðardómsins greiðist úr ríkissjóði, að því er segir í frumvarpinu.
Í gerðardómi skulu eiga sæti þrír dómendur sem skipaðir eru af ráðherra. Skal einn tilnefndur af Hæstarétti Íslands, einn af Félagi íslenskra flugumferðarstjóra og einn af Samtökum atvinnulífsins. Dómendur skulu hafa hæfni til starfans í ljósi starfsferils og þekkingar á kjarasamningum og vinnudeilum. Þá skal gerðardómur við ákvarðanir um laun og önnur starfskjör félagsmanna Félags íslenskra flugumferðarstjóra fyrst og fremst taka mið af launaþróun samkvæmt þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið á almennum vinnumarkaði síðustu misseri.
Fram kemur í frumvarpinu, að ljóst sé að kjaradeilan hafi haft verulega neikvæð áhrif á almannahagsmuni og sett verkefni ríkisins og alþjóðlegar skuldbindingar í uppnám. Því standi mjög ríkir almannahagsmunir til þess að starfsemi á íslenska flugstjórnarsvæðinu komist í eðlilegt horf og því eigi lög sem fela í sér bann við verkfalli rétt á sér við núverandi aðstæður.
„Þrátt fyrir að bann við verkföllum taki gildi þegar í stað samkvæmt frumvarpinu verður ekki gripið inn í frelsi til að gera samninga með gerðardómi fyrr en að ákveðnum tíma liðnum. Aðilum er þannig gefinn ákveðinn frestur til að ná samningum. Þykir sú leið ganga skemmra en ef gerðardómur hefði umsvifalaust tekið til starfa. Með frumvarpinu er lagt til að verkföll verði bönnuð í tiltekinn tíma. Ef ekki nást samningar fyrir tiltekið tímamark taki hlutlaus og sjálfstæður gerðardómur til starfa og ákveði launabreytingar þeirra sem eiga í hlut. Deiluaðilar tilnefna hvor sinn fulltrúa í þann gerðardóm. Hér er því reynt að fara eins sanngjarna og réttláta leið til að leysa úr deilunni og mögulegt er,“ segir í frumvarpinu.
Í frumvarpinu er farið yfir ferill deilunnar. Fram kemur, að kjarasamningur Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Isavia hafi verið laus frá 1. febrúar 2016. Viðræður um gerð nýs kjarasamnings hófust í lok október 2015 og samkvæmt viðræðuáætlun átti viðræðum að vera lokið fyrir 31. janúar 2016. Kjaradeilunni var vísað til ríkissáttasemjara 23. febrúar sl. Félagsmenn Félags íslenskra flugumferðarstjóra samþykktu að boða til yfirvinnubanns frá og með 6. apríl sl. og í atkvæðagreiðslu dagana 20.–25. apríl sl. var að auki samþykkt að setja á þjálfunarbann frá og með 6. maí sl. sem felur í sér að flugumferðarstjórar sinna ekki verklegri þjálfun nema sem seinkar nýliðun í stéttinni.
„Samningaviðræður deiluaðila hafa ekki skilað árangri og ekki líkur á lausn í bráð. Ríkissáttasemjari hefur ekki boðað til nýs samningafundar eftir fund deiluaðila 3. júní sl. og því rétt að löggjafinn stígi inn í viðræður aðila og höggvi á hnútinn með frumvarpi þessu vegna þeirra mikilvægu almannahagsmuna sem eru í húfi. Í fyrsta lagi er ríkinu ómögulegt að sinna lögbundnum skyldum sínum og þjónustu, þ.m.t. alþjóðlegum skuldbindingum um trygga, hagkvæma og örugga flugumferðarþjónustu. Í öðru lagi eru heildarhagsmunir heillar atvinnugreinar undir, þ.e. ferðaþjónustunnar, og í þriðja lagi er mikilvægt að efnahagslegum stöðugleika verði ekki stefnt í voða með ófyrirsjáanlegum afleiðingum á vinnumarkaði,“ segir í frumvarpinu.