Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 7,8% frá yfirstandandi ári og verður 6.293 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati fyrir árið 2017 sem Þjóðskrá Íslands birti í dag.
Fasteignamatið hækkar á 94,6% eigna en lækkar á 5,4% eigna frá fyrra ári.
Heildarfasteignamatið á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 8,8%. Matið á Suðurnesjum hækkar um 6,8%, það hækkar um 5,8% á Vesturlandi, um 6,9% á Vestfjörðum, 0,2% á Norðurlandi vestra, 5,7% á Norðurlandi eystra, 5,6% á Austurlandi og 4,8% á Suðurlandi.
Fasteignamat utan höfuðborgarsvæðisins hækkar mest í Vopnafjarðarhreppi eða um 12,1% og um 12% í Vesturbyggð en lækkar hins vegar mest í Akrahreppi um 4,8% og á Blönduósi um3,6%.
Ingi Þór Finnsson, sviðsstjóri Þjóðskrár Íslands, greindi frá niðurstöðunum á morgunverðarfundi á Grand hóteli.
Greiningardeildum bankanna, fasteignasölum og hagsmunasamtökum fasteignaeigenda var í fyrsta sinn boðið á þennan árlega fund, ásamt fjölmiðlum.
Meðalhækkun á mati íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu er 9,2%. Mikla hækkun er að finna víða á höfuðborgarsvæðinu. Þannig hækkar matið mest í Bústaðarhverfi eða um 20,1% og um 16,9% í Fellunum og um 16,3% í Réttarholti. Matið lækkar mest á þremur matssvæðum, um 0,8% á Kjalarnesi, um 3,5% í Garðabæ vestan Hraunholtsbrautar og um 4,1% á Arnarnesi í Garðabæ.
Mat íbúða á landinu öllu hækkar samtals um 8,5% frá árinu 2016 og verður samanlagt fasteignamat þeirra 4.234 milljarðar króna í fasteignamatinu 2017. Matsverð íbúða í fjölbýli hækkar meira á landinu öllu en mat íbúða í sérbýli.
Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 7,6%. Á höfuðborgarsvæðinu hækkar matið um 9,1% en um 4,1% á landsbyggðinni. Frístundahúsnæði hækkar um 6,3%
Nýja fasteignamatið miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2016. Það tekur gildi 31. desember 2016 og gildir fyrir árið 2017. Frestur til að gera athugasemdir við nýtt fasteignamat er til 1. september 2016.
Tilknningaseðill til fasteignaeigenda er rafrænn og verður á Island.is frá og með 15. júní 2016. Alls er um að ræða um 170 þúsund fasteignaeigendur úti um allan heim.
Einnig er hægt að nálgast fasteignamatið á heimasíðu Þjóðskrár Íslands.