Geysissvæðið ekki friðlýst

Rúmt ár er síðan Marco litaði Strokk bleikan.
Rúmt ár er síðan Marco litaði Strokk bleikan.

Geysir og hverasvæðið sem við hann er kennt, er ekki friðlýst. Hveramyndanir njóta hins vegar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Þetta kom fram í máli Lindu Guðmundsdóttur, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun og landvarðar á Geysissvæðinu, sem kölluð var til vitnis í dag í máli Marco Antonio Evaristti, sem ákærður er fyrir að hafa sett rauðan lit í hverinn Strokk.

Linda sagðist aðspurð hafa tekið sýni af vatninu umhverfis Strokk og einnig af „klísturklessum“ þar í kring. Afhenti hún lögreglu sýnin.

Hverahrúðrið nýtur verndar

Hún sagði litinn hafa verið í kringum hverinn í nokkra daga, eða þar til rigndi, einkum á hverahrúðrinu. 

„Liturinn var í einhvern tíma á svæðinu, til dæmis á hverahrúðrinu. Pollarnir dofnuðu en skellurnar og blettirnir voru í einhverja daga,“ sagði Linda. Spurð af saksóknara sagði hún hverahrúðrið njóta verndar samkvæmt lögum gagnvart spjöllum.

Dómarinn spurði þá um lagalega stöðu hversins og svæðisins á þessum tíma, 24. apríl 2015.

Linda sagði þá hveramyndanir njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Svæðið væri hins vegar ekki friðlýst sem slíkt.

Listamaðurinn Marco Ant­onio Evarist­ti fyrir utan Héraðsdóm Suðurlands í dag.
Listamaðurinn Marco Ant­onio Evarist­ti fyrir utan Héraðsdóm Suðurlands í dag. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert