Geysir og hverasvæðið sem við hann er kennt, er ekki friðlýst. Hveramyndanir njóta hins vegar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Þetta kom fram í máli Lindu Guðmundsdóttur, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun og landvarðar á Geysissvæðinu, sem kölluð var til vitnis í dag í máli Marco Antonio Evaristti, sem ákærður er fyrir að hafa sett rauðan lit í hverinn Strokk.
Linda sagðist aðspurð hafa tekið sýni af vatninu umhverfis Strokk og einnig af „klísturklessum“ þar í kring. Afhenti hún lögreglu sýnin.
Hún sagði litinn hafa verið í kringum hverinn í nokkra daga, eða þar til rigndi, einkum á hverahrúðrinu.
„Liturinn var í einhvern tíma á svæðinu, til dæmis á hverahrúðrinu. Pollarnir dofnuðu en skellurnar og blettirnir voru í einhverja daga,“ sagði Linda. Spurð af saksóknara sagði hún hverahrúðrið njóta verndar samkvæmt lögum gagnvart spjöllum.
Dómarinn spurði þá um lagalega stöðu hversins og svæðisins á þessum tíma, 24. apríl 2015.
Linda sagði þá hveramyndanir njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Svæðið væri hins vegar ekki friðlýst sem slíkt.