Héraðssaksóknari hefur fellt niður mál lögreglumanns sem sakaður var um óeðlileg samskipti við brotamenn. Lögreglumaðurinn var leystur frá störfum um miðjan janúarmánuð vegna málsins, en hann hafði áður verið fluttur til í starfi innan lögreglunnar vegna ásakana um hvernig samskiptum hans væri háttað við brotamenn.
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari staðfestir að málið hafi verið fellt niður í samtali við mbl.is, en hún segir að ekkert bendi til sektar mannsins. „Það var ekkert sem benti til refsiverðs brots,“ segir hún og bætir við að mjög djúpt hafi verið farið í málið og rannsóknin verið viðamikil.
Málið fjallar um meint óeðlileg samskipti lögreglumannsins við brotamenn og segir Kolbrún að ekki sé hægt að segja að maðurinn hafi ekki átt í samskiptum við brotamenn. Það felist í starfinu. Það hafi aftur á móti ekki komið fram neitt við rannsóknina sem benti til þess að slík samskipti hafi verið óeðlileg. Rúv sagði fyrst frá málinu.
Eftir áramót var gerð breyting á saksóknaraembættum hérlendis og rannsókn á lögreglumönnum og aðgerðum þeirra var færð undir nýtt embætti héraðssaksóknara. Ríkissaksóknari varð í leiðinni að öðru stigi ákæruferlisins þangað sem hægt er að kæra niðurstöðuna til ríkissaksóknara.
Þetta mál er þó óhefðbundið þar sem ekki er um raunverulegan brotaþola að ræða eins og t.d. í ofbeldismálum. Kolbrún segir að afrit af niðurstöðunni verði send á ríkissaksóknara og embættið geti þá yfirfarið þessa ákvörðun og í sjálfu sér tekið það til skoðunar ef vilji sé fyrir því. Aftur á móti sé ekki komið fordæmi í svona málum og því sé ekki víst hvernig málið verði afgreitt. Auk þess geti vitanlega lögreglan eða þeir sem hafi í upphafi talið pott brotinn í málinu kært niðurstöðuna.
Upphaflega tók embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu málið til skoðunar og segir Kolbrún að það hafi verið að beiðni ríkissaksóknara sem á þeim tíma fór með rannsókn á málefnum lögreglunnar. Ekki hafið verið um eiginlega rannsókn að ræða heldur skoðun. Hún segir að lögreglan hafi tekið málið saman en það hafi verið saksóknara að hefja eiginlega rannsókn málsins.
Lögreglumaðurinn sem um ræðir var leystur frá störfum um miðjan janúarmánuð, en hann var meðal annars sagður hafa stýrt tálbeituaðgerð við Hótel Frón í fyrra sem klúðraðist, en hollensk kona sem hafði flutt inn fíkniefni ákvað að aðstoða lögreglu en var að lokum dæmd í ellefu ára fangelsi.
Lýstu níu samstarfsmenn lögreglumannsins vantrausti á hann síðasta vor og vísuðu áhyggjum sínum til Friðriks Smára Björgvinssonar, sem þá var yfirmaður deildarinnar. Eftir að þeir fengu engin viðbrögð var farið með málið lengra til Sigríðar og var í framhaldinu ákveðið að færa fulltrúann til í starfi.