ASÍ og BSRB munu ekki þaka þátt í stofnun Þjóðhagsráðs. Þetta kemur fram í yfirlýsingu samtakanna beggja. Þar segja þau ótímabært að stofna ráðið á meðan ekki hafi náðst sátt um hlutverk þess og markmið. Forsætisráðherra hefur boðað til stofnfundar Þjóðhagsráðs í dag.
„Undanfarið ár hafa fulltrúar þeirra samningsaðila sem eiga aðild að rammasamkomulagi á vinnumarkaði frá því í október 2015 (SALEK) átt í viðræðum við stjórnvöld og Seðlabanka Íslands um stofnun Þjóðhagsráðs. Í þeim viðræðum hefur verið ágreiningur milli fulltrúa ASÍ og BSRB annars vegar og annarra aðila að ráðinu hins vegar um hlutverk og markmið ráðsins,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.
Þá segjast ASÍ og BSRB gera kröfu til þess að Þjóðhagsráð fjalli ekki einungis um forsendur efnahagslegs stöðugleika heldur einnig forsendur félagslegs stöðugleika í samfélaginu.
„Fulltrúar BRSB og ASÍ hafa lagt til að myndaður verði annar samhliða vettvangur um samræðu fulltrúa stjórnar og stjórnarandstöðu og fulltrúa samningsaðila á vinnumarkaði. Þar geti þessir aðilar freistað þess að mynda breiða samstöðu um meginviðfangsefni og forgangsröðun í uppbyggingu velferðarkerfisins og fjármögnun þess.“
Segir svo að samræða um þessa hugmyndafræði hefur verið í gangi undanfarið en engin niðurstaða hafi náðst.
„Forsætisráðherra hefur boðað til stofnfundar Þjóðhagsráðs í dag, 8. júní, þrátt fyrir að engin niðurstaða sé um málsmeðferð um hina velferðarpólitísku hlið málsins. Fulltrúar ASÍ og BSRB telja þetta miður og eru sammála um að félagslegur stöðugleiki sé ekki síður mikilvægur en efnahagslegur stöðugleiki.“
Að lokum segir í yfirlýsingunni að það sé skoðun beggja aðila að ótímabært sé að stofna ráðið á meðan ekki hafi náðst sátt um hlutverk þess og markmið.
„Af þeim orsökum munu hvorki ASÍ né BSRB taka þátt í stofnun Þjóðhagsráðs, né taka þátt í starfi ráðsins fyrr en fyrir liggur með hvaða hætti umræðum og samstarfi um félagslegan stöðugleika verður háttað.“
Fyrri frétt mbl.is: Greinir á um Þjóðhagsráð
Fulltrúar ríkisstjórnar Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands komu saman í morgun á fyrsta fundi Þjóðhagsráðs.
Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að stofnun ráðsins sé í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí í fyrra, en hún hafi verið gefin út til að greiða fyrir gerð kjarasamninga.
„Það er mikilvægt að til sé vettvangur til að skiptast á skoðunum um hvert við stefnum á vinnumarkaði. Hlutverk ráðsins verður að greina stöðuna í efnahagsmálum og ræða samhengi ríkisfjármála, peningastefnu og vinnumarkaðar í tengslum við helstu viðfangsefni hagstjórnar hverju sinni. Þetta er mikilvægur hlekkur í því sem nefnt hefur verið SALEK samkomulagið á vinnumarkaði“, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra.
Í reglum ráðsins segir að það skuli beina umfjöllun sinni sérstaklega að þáttum þar sem samhæfingu sé helst ábótavant. Þjóðhagsráð taki ekki ákvarðanir í efnahags- eða kjaramálum og stofnun þess breyti ekki lögbundnum hlutverkum þeirra aðila sem að ráðinu standa.
Í Þjóðhagsráði sitja forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Seðlabanka Íslands. Heildarsamtök launafólks sem aðild eiga að rammasamkomulaginu hverju sinni geta gerst aðilar að Þjóðhagsráði, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Þá segir að starfsemi ráðsins skuli tekin til endurskoðunar fyrir árslok 2018. Jafnframt sé heimilt að endurmeta starfsemi ráðsins ef rammasamkomulagi aðila á vinnumarkaði er slitið. Að lokum verði fundargerðir ráðsins gerðar öllum aðgengilegar.