Spennandi tímar hjá Kaleo

Það eru spennandi tímar hjá Mosfellingunum í Kaleo núna. Á föstudaginn kemur platan A/B út sem er þeirra fyrsta breiðskífa í Bandaríkjunum og þann sama dag verða útgáfutónleikar í L.A. Sveitin hefur fengið mikinn meðbyr þar vestra að undanförnu en mbl.is hitti þá á tónleikaferðalagi í Portland á dögunum.

Sveitin hefur fengið mikinn meðbyr þar vestra síðastliðna mánuði og hefur með mikilli vinnu náð að skapa sér vinsældir og gott orðspor. Á þeim stutta tíma sem ég dvaldi í borginni heyrðist lagið „Way down we go“ margoft í útvarpi inni á hinum ýmsu stöðum. Það hefur ásamt adrenalínrokkslagaranum „No Good“ verið á Billboard-listum að undanförnu og það er augljóst að strákarnir ná vel til fólksins sem kemur á tónleikana þeirra.

Dagskráin er þétt og oft eru þeir að spila tvisvar á dag bæði á útvarpsstöðvum og svo á tónleikastöðunum sem hafa verið 600–1000 manna staðir. Næsta árið er að verða fullbókað og í haust tekur við tónleikaferðalag þar sem staðirnir verða 2–3000 manna. 

Ég settist niður með strákunum á þaki Revolution Hall í Portland þar sem þeir komu fram fyrir fullu húsi 30. maí og ræddi við þá um tónlistina, Bandaríkin og ferðalögin. Upphaflega áttu þeir að vera að spila á mun minni tónleikastað en ásókn í miða var slík að hægt var að færa tónleikana á stærri stað.

Á föstudaginn verður svo sýnt myndskeið þar sem meira sést af tónleikum strákanna og rætt er við tónleikagesti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert