Æfir frá tíu á morgnana til tíu á kvöldin

Helsti styrkleiki Ragnheiðar Söru felst í lyftingum.
Helsti styrkleiki Ragnheiðar Söru felst í lyftingum. mbl.is/

„Stefnan er sett á að vinna heimsleikana, það er ekkert annað í boði,“ segir Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, Evrópumeistari í crossfit. Ragnheiður Sara kom heim til Íslands fyrir rúmri viku og hefur verið á stífum æfingum síðan. Eftir Evrópuleikana fór hún beinustu leið til Boston í myndatöku fyrir Nike en hún er á fjögurra ára samningi hjá fyrirtækinu.

„Ég held að ég sé eini Íslendingurinn sem hefur verið á svona stórum samningi hjá Nike en ég var að skrifa undir nýjan samning sem gildir næstu fjögur árin,“ segir Ragnheiður Sara. Í samningnum felst að Ragnheiður Sara fer í um þrjár myndatökur á ári fyrir íþróttarisann og má aðeins klæðast æfingafötum frá fyrirtækinu.

Með þjálfara á Mallorca og í Danmörku 

Nú fer mestallur tími Ragnheiðar Söru í æfingar fyrir heimsleikana í crossfit sem fram fara í Kaliforníu um miðjan júlí. „Maður getur ekkert gefið eftir þar sem það eru bara fimm vikur í mót.“

Ragnheiður Sara æfir í CrossFit Suðurnesjum í Sporthúsinu í Keflavík og fer mestallur dagurinn í æfingar fyrir mót. „Ég æfi frá tíu á morgnana til tíu á kvöldin með nokkrum hléum inn á milli,“ segir Ragnheiður Sara. Hún er með tvo þjálfara, einn í Mallorca og annan í Danmörku, sem skiptast á að kíkja á æfingar til hennar á Íslandi. Sjálf sér þó Ragnheiður Sara um mataræði sitt en það samanstendur af hreinni fæðu og fitu til að safna kaloríum.

Ragnheiður Sara er nautsterk, eins og sést vel á þessari …
Ragnheiður Sara er nautsterk, eins og sést vel á þessari mynd. Ljósmynd/Ragnheiður Sara

Lyftingar helsti styrkleikinn 

Fyrir Evrópuleikana í crossfit fá keppendur að vita tveimur vikum fyrir mót í hvaða greinum verður keppt. Það sama gildir ekki um heimsleikana en þar er það ekki tilkynnt fyrr en leikarnir hefjast í hverju keppt verður. Keppendur þurfa því að æfa sig og standa sem best að vígi í öllum greinum. „Það getur hvað sem er komið á heimsleikunum þannig að maður þarf í raun að einblína á allt,“ segir Ragnheiður Sara. Aðspurð segir hún sinn helsta styrleika felast í lyftingum en aftur á móti séu fimleikaæfingar sinn helsti veikleiki í crossfitinu. 

Stefnan hjá Ragnheiði Söru er sett á að mæta til Kaliforníu ekki seinna en 26. júní til að ná nokkrum æfingum með æfingafélaga sínum sem býr í Bretlandi. Hún segir íslensku stelpurnar ekki hittast mikið meðan á leikunum standi þar sem hver og ein sé með sitt æfingaplan. „Þetta er svo einstaklingsbundið og maður tímir ekki alveg að fórna sinni æfingu til þess að geta æft með einhverjum öðrum.“

Spurð um framtíðina segir Ragnheiður Sara að hún hafi ekki tekið ákvörðun um hvort hún flytjist út til að æfa eða ekki. „Þetta er svolítið mikið vesen núna út af vísa. En það er spurning hvort maður skoði það betur seinna þegar það kemur kannski eitthvert betra tækifæri.“

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, Evrópumeistari í crossfit.
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, Evrópumeistari í crossfit. Ljósmynd/Berserkur

Allt eða ekkert 

Ragnheiður Sara hóf crossfitferil sinn í janúar árið 2012 en slasaðist þá illa á úlnlið. „Úlnliðurinn er allt  í crossfit og því þurfti ég að bíða í ár til þess að geta farið af stað fyrir alvöru.“ Það var því í janúar 2013 sem hún byrjaði á fullu en rétt fyrir Evrópuleikana 2013 datt hún úr lið í handstöðulyftu sem gerði það að verkum að hún var afar vör um sig á leikunum. Árið 2014 voru svo afar margar fimleikaæfingar á leikunum sem eru ekki sterkasta svið Ragnheiðar Söru.

„Eftir þessi tvö ár fékk ég gott spark í rassinn og hugaði að ég ætlaði aldrei aftur að lenda í einhverju svona, ég þyrfti bara að vera góð í öllu ef ég ætlaði að vera í crossfit.“ Ragnheiður Sara vann Evrópuleikana í crossfit tvö ár í röð, 2015 og 2015, og ætlar sér að fara með sigur af hólmi í heimsleikunum í crossfit í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert