Um helgina fór fram aðalfundur Pírata, en meðal annars var kosning í framkvæmdaráð flokksins og lagabreytingar samþykktar. Þá voru starfsmenn flokksins kynntir og farið yfir komandi kosningar. Píratar ætla að hafa prófkjör í öllum kjördæmum og vera komnir með lista í ágúst. Þetta segir Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri flokksins, í samtali við mbl.is.
Sigríður segir að fundurinn hafi farið mjög vel fram. Gerðar hafi verið 11 lagabreytingar og í dag hafi nýtt framkvæmdaráð verið kosið. Tuttugu og sjö einstaklingar buðu sig fram, en kosið var um fimm aðalmenn og fimm varamenn. Þá voru tveir aðalmenn og tveir varamenn valdir með slembiúrtaki.
Þau sem voru kosin voru þau Elín Ýr Hafdísardóttir, Sunna Rós Viðarsdóttir, Rannveig Ernudóttir, Eysteinn Jónsson og Þórlaug Ágústsdóttir. Þau Jason Steinþórsson og Halldóra Sigrún Magnúsdóttir voru valin með slembiúrtaki. Framkvæmdastjórnina skipa því fimm konur og tveir karlmenn að sögn Sigríðar Bylgju.
Á fundinum var einnig kynntur stefnumálahópur flokksins, en það er fólk sem hefur tekið að sér að halda utan um formlega stefnumótunarvinnu fyrir alþingiskosningar í haust. Segir Sigríður Bylgja að félagar í Pírötum muni velja og kjósa um þau áherslumál sem Píratar leggja áherslu á fyrir komandi kosningar og stefnumálahópurinn haldi utan um þá vinnu. Eftir að málin hafa verið valin verður það á hendi framkvæmdaráðs og efstu manna á lista hjá flokknum að koma málefnunum opinberlega á framfæri.
Á fundinum héldu þingmenn flokksins og borgarfulltrúi erindi. Sigríður Bylgja segir að Helgi Hrafn Gunnarsson hafi verið með erindi um gagnrýna hugsun í stjórnmálum. Ásta Guðrún Helgadóttir hafi sagt frá reynslu sinni á þingi og hvernig hlutirnir væru í raun. Þá hafi hún farið yfir hvernig væri að vera þriggja manna þingflokkur og hvort þingmenn hans hefðu í raun eitthvað um málin að segja. Birgitta Jónsdóttir var svo með eins konar hópefli að sögn Sigríðar Bylgju og Halldór Auðar Svansson fór yfir borgarmálin.
Hundrað og sjötíu manns voru skráðir á fundinn, en honum var einnig streymt á netinu og gátu félagsmenn þar tekið þátt í öllum kosningum, en kosningakerfið var rafrænt. Segir Sigríður Bylgja að þátttaka í lagabreytingum og kjöri hafi verið á bilinu 100–200 manns í það heila.
Sigríður Bylgja segir að prófkjör verði haldin í öllum kjördæmum og þannig verði valið á lista flokksins. Segir hún að það verði á hendi aðildarfélaga að halda utan um prófkjörin, en í framhaldi af þeim muni kosningastjóri flokksins og framkvæmdaráð taka við þegar listarnir eru klárir. „Við verðum vonandi klár með lista í ágúst, það er allt á fullu,“ segir hún.
Margt fólk utan af landi mætti á fundinn að sögn Sigríðar Bylgju og segir hún spennu í félagsmönnum fyrir kosningarnar. „Við erum virkilega spennt fyrir komandi tímum og hlökkum til að mæta þjóðinni í kosningum.“