Bandaríski stórleikarinn Ben Stiller var staddur á Íslandi í síðustu viku og heimsótti hann m.a. Drangey á meðan hann var á landinu en hann er farinn af landi brott.
„Það er ekki á hverjum degi sem við fáum svona höfðingja í heimsókn,“ segir Helgi Rafn Viggósson, annar eigandi Drangey Tours og einn Drangeyjarjarlanna.
Afi Helga Rafns er Jón Eiríksson Drangeyjarjarl sem hefur flutt ferðafólk út í Drangey í fjölda ára.
„Hann kom nú bara í heimsókn í Drangey með okkur. Kíkti á lundann og þetta fallega útsýni,“ segir Helgi Rafn en Stiller var á ferð með vinum sínum. „Maður tók honum nú bara eins og hverjum öðrum ferðamanni,“ segir Helgi og bætir við að Stiller hafi látið mjög vel af Drangey.
Drangey Tours birtu mynd af Helga Rafni og Stiller á Facebook-síðu fyrirtækisins í dag í tilefni af 33 ára afmæli Helga Rafns. Spurður hvernig hann ætli að verja kvöldinu segist hann ætla að fylgjast með íslenska fótboltalandsliðinu. „Fá almennilega afmælisgjöf frá Íslendingunum, það væri skemmtilegt,“ segir hann.