Umhverfisstofnun hefur hafnað umsókn ferðaþjónustubónda á Geiteyjarströnd til fimm ára tilraunasiglinga með ferðafólk á Mývatni. Aðalástæðan er að starfsemin er talin geta haft truflandi áhrif á fuglalíf.
Bóndinn er ósáttur við niðurstöðuna og hefur ákveðið að kæra hana til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
„Ég vil gjarnan fá að fara með ferðamenn út á Mývatn á litlum rafmagnsbát,“ segir Helgi Héðinsson, bóndi á Geiteyjarströnd 1. Hann segir að fjölskyldan eigi lítinn norskan trébát sem hann hafi notað fyrir sig og sína en tekur fram að hann myndi þurfa að láta smíða stærri bát til að sigla með ferðafólk. Í umsókninni kemur fram að það yrði 20 manna norskur trébátur, knúinn með rafmagni. Stefnt sé að því að hefja starfsemi á næsta ári.