Fækka Tyrklandsferðum um nærri helming

Sala á ferðum til Tyrklands gengur ekki vel.
Sala á ferðum til Tyrklands gengur ekki vel. AFP

Forsvarsmenn ferðaskrifstofunnar Nazar ætluðu að bjóða upp á vikulegar brottfarir frá Íslandi til Tyrklands í allt sumar, en nú hafa þeir fellt niður allt flug frá miðjum júlí.

„Sala á ferðum til Tyrklands gengur hvergi vel og við sjáum samdrátt upp á 30 til 40 prósent á öllum okkar mörkuðum,“ er haft eftir Kemal Yamanlar, forstjóra ferðaskrifstofunnar Nazar, á ferðavefnum Túristi.is. Nazar sérhæfir sig í sólarlandaferðum frá öllum Norðurlöndunum til Tyrklands.

Ein helsta ástæðan fyrir þessari minnkandi eftirspurn er, að mati Yamanlar, sú að nú ríkir almenn ferðahræðsla meðal fólks, m.a. vegna hryðjuverkanna í Tyrklandi en einnig París og Brussel.

Nazar hefur af þessum sökum fellt niður allt flug frá Íslandi til Antalya í Tyrklandi frá miðjum júlí og verða brottfarirnar í sumar því aðeins sjö, en upphaflega stóð til að fara tólf ferðir.

Þessa dagana eru starfsmenn Nazar að hafa samband við þá farþega sem áttu bókuð sæti í ferðunum seinni hlutann í júlí og ágúst.

Yamanlar segir minnkandi spurn eftir Tyrklandsferðum hér á landi ekki vera einsdæmi því staðan sé svipuð á hinum norrænu mörkuðunum, nema í Noregi þar sem samdrátturinn er enn þá meiri en þar vegur fallandi gengi norsku krónunnar líka þungt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert