Sólarferðir á slikk

Þótt oft sé ljúft í Nauthólsvík má vænta þess að …
Þótt oft sé ljúft í Nauthólsvík má vænta þess að margir vilji skella sér til sólarlanda. mbl/ Rósa Braga

Talsvert er um laus sæti í sólarlandaferðir hjá ferðaskrifstofunum í júnímánuði og keppast þær nú við að auglýsa tilboðsferðir. Svo virðist sem Evrópumótið í fótbolta hafi þar einhver áhrif en það ku ekki vera helsta ástæða þess; um sé að ræða mikið framboð sólarlandaferða.

Tómas Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða, segir að nú séu bestu tilboðin í gangi en býst þó við að verð muni hækka eftir því sem líður á sumarið. Klara Vigfúsdóttir, sölustjóri hjá Úrvali-Útsýn, tekur í sama streng, framboð sé mikið á markaði auk þess sem bókunarvenjur séu að breytast. Algengara er nú en áður að fólk bóki ferðir með stuttum fyrirvara en á sama tíma sé mikið um að fólk leyfi sér meiri lúxus og dýrari gistingu en undanfarin ár. Í slíkum tilfellum sé þó best að bóka með góðum fyrirvara.

Færri vilja til Tyrklands

Einnig virðist sem aðstæður í heiminum hafi töluverð áhrif á val fólks á áfangastöðum en bæði Úrval-Útsýn og ferðaskrifstofan Nazar segja að talsvert minna sé um bókanir ferða til Tyrklands en verið hefur. Fólk horfi til aðstæðna á hverjum stað og bóki síður ferðir til áfangastaða þar sem óróleiki er í loftinu. Færri bókanir, til að mynda til Tyrklands og Grikklands, geri það að verkum að ferðir til þessara áfangastaða lækka í verði.

Þó tilhneigingin sé önnur nú en verið hefur er þó almennt jafnmikið eða meira um bókanir hjá ferðaskrifstofunum. Það sé fyrst og fremst mikið framboð og fjölgun áfangastaða sem hefur þau áhrif að ekki sé uppselt í allar ferðir.

Brunaútsala í júní

Samkvæmt upplýsingum frá þeim ferðaskrifstofum sem mbl.is ræddi við, hefur gengið ágætlega að fylla ferðir en þó er enn talsvert um laus sæti. Þær segja því tilvalið fyrir þá sem hafa hug á að skella sér í sólina að nýta tækifærið á meðan ódýrar ferðir eru í boði nú í júní. Bæði sé meira um bókanir seinna í sumar og einnig sé gistináttaverð almennt hærra í júlí og ágúst.

Ýmsir mögu­leik­ar standa til boða en Úrval-Útsýn býður til að mynda sjö daga ferð til Kanarí frá 50.300 krón­um á mann og til Mallorca frá 61.350. Heimsferðir bjóða stökktilboð frá 49.995 krónum til Mallorca, 59.995 krónum til Cost del Sol á Spáni og frá 89.995 krónum til Krítar á Grikkland en þeir bjóða einnig upp á 11 daga ferð til Krítar fyr­ir um 113.000 krón­ur á mann. Þá bjóða Vita ferðir upp á ellefu daga ferðir til Krítar frá 74.900 krónum og frá 104.900 krónum til Tenerife. Einnig bjóða þeir upp á sjö daga ferðir til Alicante frá 49.900 krónum og Mallorca frá 59.995. Plúsferðir bjóða sjö daga ferðir til Mallorca frá 61.350 krónum og til Alicante frá 67.310 krónum. Loks bíður Naz­ar upp á svokallaðar „síðasta séns“-ferðir þar sem bóka má sjö daga ferðir með gistingu og morgunverði fyrir allt niður í 35.599 krónur.

Afsláttur frá upprunalegu verði getur skipt tugum þúsunda á mann en yfirleitt miðast kostnaður við tvo fullorðna. Nán­ar um ferðir og til­boð má nálg­ast á heimasíðum ferðaskrif­stof­anna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert