Tveir menn voru handteknir í gærmorgun í tengslum við rannsókn setts saksóknara á morði Guðmundar Einarssonar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Morgunblaðsins hefur embætti setts saksóknara yfir málinu undir höndum nýjan vitnisburð í tengslum við málið og var hann talinn gefa tilefni til að handtaka mennina tvo.
Vegna rannsóknarhagsmuna voru mennirnir handteknir og yfirheyrðir hvor í sínu lagi, til að koma í veg fyrir að þeir gætu samhæft vitnisburði sína. Mennirnir voru látnir lausir að yfirheyrslum loknum. Þeir hafa báðir komið við sögu lögreglu áður og afplánað refsidóma.
Frétt mbl.is: Falskar játningar mun algengari en talið var
Samkvæmt lögum um meðferð sakamála hefur lögreglan heimild til að handtaka mann ef rökstuddur grunur leikur á að hann hafi framið brot sem sætt getur ákæru, enda sé handtaka nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, til að tryggja návist viðkomandi eða öryggi hans eða annarra eða til að koma í veg fyrir að sá sem í hlut á spilli sönnunargögnum.
Davíð Þór Björgvinsson, settur saksóknari endurupptöku Guðmundar og Geirfinnsmálsins, og Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar, vildu ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.
Morðið á Guðmundi Einarssyni er hluti af hinu víðfema Guðmundar og Geirfinnsmáli. Tilkynnt var um hvarf Guðmundar hinn 29. janúar árið 1974. Lögreglan lýsti eftir Guðmundi í fjölmiðlum og hóf leit ásamt Slysavarnarfélagi Íslands. Leit skilaði engum árangri. Síðast sást til Geirfinns hinn 19. nóvember árið 1974, en hann hafið mælt sér mót við óþekktan mann í Keflavík. Hópur ungmenna var síðar fundinn sekur um morðin á Guðmundi Einarssyni og Geirfinni Einarssyni.
Málið er nú á borði endurupptökunefndar eftir að endurupptökubeiðni var lögð fram í kjölfar skýrslu nefndar sem innanríkisráðherra skipaði til að fara yfir rannsókn og málsmeðferð Guðmundar- og Geirfinnsmálsins.