Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, aðstoðarmaður Ólafar Nordal innanríkisráðherra, gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Hún greindi frá þessu á Facebook-síðu sinni fyrr í kvöld.
Þórdís gegndi stöðu framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokksins áður en hún var ráðin aðstoðarmaður Ólafar. Hún útskrifaðist með BA-gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2010 og ML-gráðu frá sama skóla árið 2012.
Þórdís var kosningastjóri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir síðustu alþingiskosningar en áður starfaði hún m.a. hjá sýslumanninum á Akranesi, Marel og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
Hún hefur verið virk í félagsstörfum og m.a. verið formaður ungra sjálfstæðismanna á Akranesi, setið í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna og stjórn Lögréttu, félags laganema við Háskólann í Reykjavík.