Dr. Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, þekkir lífríkið í Mývatni nánast eins og lófann á sér enda hefur hann rannsakað það frá árinu 1975, eða í rúm 40 ár.
Mikil umræða hefur verið uppi um lífríkið í vatninu og í Laxá að undanförnu og skorað hefur verið á ríkisstjórnina að grípa til aðgerða til að vernda lífríkið sem sé í bráðri hættu vegna næringarefnaauðgunar.
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað samstarfshóp sem á að skila skýrslu um ástand mála fyrir næstkomandi föstudag og er Árni einn þeirra sem skipa hann. „Þetta er góður hópur sem hefur fyrst og fremst það hlutverk að taka saman lýsingu á ástandinu, bæði á náttúrunni og þessum frárennslismálum og benda á hvað þurfi að gera. Þetta er frekar stutt skýrsla til að draga saman mikilvægustu atriðin,“ segir hann og er ánægður með skipan hópsins. „Einhvers staðar verða menn að byrja. Mývatnsmálin eru löng og flókin. Það er margt búið að gerast hérna og margar og miklar skoðanir á hlutunum.“
Frétt mbl.is: Hópur um ástand Mývatns fundar
Blaðamaður mbl.is og ljósmyndari tóku hús á honum í síðustu viku, á sama tíma og óvenjumikið mý var á svæðinu. Árni kippti sér lítið upp við það á meðan við reyndum allt hvað við gátum til að halda uppi vörnum gegn „ófögnuðinum“ með tilheyrandi höfuðnetum og úlpuklæðnaði í sumarhitanum.
Um 200 þúsund erlendir ferðamenn komu til Mývatns frá júní til ágústmánaðar í fyrra og hefur Árni áhyggjur af því hvaða áhrif þessi mikli fjöldi hefur á svæðið. „Aukningin er svo mikil að þess hljóta að sjást ummerki á einhvern hátt. En þessar sveiflur og þessi langtímaþróun á lífríkinu er byrjuð löngu áður en ferðamannastraumurinn fer að aukast svona mikið. Ég held samt að menn sjái að það þýðir ekki að taka endalaust á móti ferðamönnum án þess að gera eitthvað í því. Það þarf að gera einhverjar ráðstafanir til þess að þetta skaði ekki vatnið,“ greinir hann frá og á þar fyrst og fremst við frárennslismálin.
„Það er fleira í gangi líka. Byggðin er að þenjast út á mörgum stöðum og það er verið að þrengja að landslaginu og allri aðstöðu. Það hefur ekki bein áhrif á vatnið heldur upplifunina á þessu svæði.“
Til marks um þetta vill Icelandair Hotels byggja 43 herbergja viðbyggingu við Hótel Reykjahlíð, sem stendur alveg við Mývatn. Fleiri hótel hafa einnig stækkað eða risið við vatnið undanfarin ár, auk þess sem Fosshótel er að byggja 5.000 fermetra hótel á þremur hæðum við Grímsstaði.
Frétt mbl.is: Byggja við gamla hótelið
„Ferðamannastraumurinn er þannig að þetta er orðinn massatúrismi. Þá verða menn að gera eitthvað róttækt í því, annað er ekki boðlegt. Það fylgir þessu mikill umferðarþungi og þetta breytir upplifun fólks af svæðinu,“ segir Árni, sem man tímana tvenna. „Ég er búinn að vera hérna í meira en 40 ár og þá sér maður þessa þróun. Hún er ekki eins og maður vildi helst kjósa.“
Rannsóknamiðstöðin, sem er ríkisstofnun, hefur það hlutverk að safna saman öllum mögulegum upplýsingum um Mývatn til að reyna að skilja vistkerfið þar betur en vatnið var friðlýst árið 1974.
„Mikill partur af starfinu snýst um að fylgjast með hvað gerist frá ári til árs og skoða langtímabreytingarnar. Einnig er verið að vinna skammtíma rannsóknarverkefni sem beinast að einstökum spurningum sem menn telja mikilvægar. Svo reynum við að vera miðstöð fyrir fólk sem vill vinna hérna,“ segir hann og tekur fram að margar af þeim rannsóknum sem gerðar eru á Mývatni séu ekki á vegum ríkisins heldur ýmissa háskóla, bæði innlendra og erlendra. „Þetta er einstakt svæði á heimsvísu, það sér maður sífellt betur eftir því sem maður skoðar meira af heiminum.“
Að sögn Árna kallar svæðið á rannsóknir, bæði vegna friðlýsingarinnar og vegna mannabyggðarinnar sem þarna er en innan við 400 íbúar eru í Skútustaðahreppi. „Það hefur reynst mjög auðvelt að fá fólk til að koma hingað vegna þess að þetta er spennandi staður og verður æ meira spennandi með hverju árinu vegna þess að við höfum svo mikla undirstöðu að byggja ofan á. Menn geta sett rannsóknir sínar í samhengi við það sem hefur verið að gerast í vatninu.“
Spurður nánar út í lífríkið í vatninu og þær breytingar sem hafa orðið á því segir Árni það hafa tekið um 20 ár að sjá átta sig á hve sveiflukennt lífríkið er. Sveiflurnar eru að hluta til náttúrulegar en hafa ýkst, líklega vegna námuvinnslunnar sem var í Mývatni, að hans mati. Það hafi þó alla tíð háð vísindamönnum að hafa ekki samanburðinn frá því áður en starfsemi Kísiliðjunnar hófst við Mývatn. Hún var starfrækt nokkra kílómetra frá vatnsbakkanum frá árinu 1966 til 2004 en kísilgúr var unninn úr leðju sem dælt var upp af botni Mývatns.
„Ofan í þessar sveiflur kemur langtímaþróun sem við sjáum eiginlega ekkert fyrr en upp úr aldamótum og þessi þróun veldur okkur áhyggjum. Vatnið er ekki lengur tært,“ greinir Árni frá. Þróunin hafi verið þannig að fyrir aldamót hafi skipst á tímabil þar sem blábakteríublómi, sem gruggaði vatnið, hafi staðið yfir í tvö til þrjú ár. Þá varð vatnið tært í nokkur ár og svo kom blóminn aftur. Núna er ástand mála þannig að vatnið verður ekki tært á milli.
Þegar vatnsbotninn fær ekki birtuna yfir sumarið sem hann þarf á að halda hverfur botngróðurinn. Ef gróðurinn er farinn úr botninum verða sveiflurnar í næringarefnunum miklu meiri. „Þetta er ferill sem menn þekkja úr vötnum víða um heim og þetta sem við höfum verið að horfa upp á er dæmigerð þróun sem fylgir næringarefnaauðgun af einhverju tagi, þ.e. mannlegum umsvifum. Við vitum ekki fyrir víst að svo sé hér en þetta er þróun sem yfirleitt fær menn til að taka við sér og reyna að gera eitthvað í málunum.“
Kúluskíturinn, sem hefur af og til verið í umræðunni og er hluti af botngróðrinum, er til dæmis nánast horfinn úr Mývatni. „Það er eftirsjá að honum. Við vissum að hann væri viðkvæm lífvera sem þolir ekki mikla breytingu á birtu. Það hefur verið litið á hann sem kanarífuglinn í námunni, að hann verði það fyrsta sem hverfur.“
Hann segir einnig mikla eftirsjá að silungnum sem sé afar fáliðaður í Mývatni sem hér áður fyrr var með bestu veiðivötnum landsins. „Það er löng saga að segja frá því og alls ekkert einföld en eftir 1970 hefur bleikjustofninum hrakað mjög mikið. Það er búið að friða hann að mestu leyti en sá stofn er mjög illa staddur,“ segir Árni.
„Þetta er þróun sem mann hafði ekki órað fyrir að maður ætti eftir að upplifa. Maður gekk að þessu með þá hugmynd að það væri ákveðinn stöðugleiki í lífríkinu. Svo upplifir maður eitthvað allt annað. Að það sé ekki silungsveiði í Mývatni og botngróður er alveg ótrúlegt.“
Spurður út í lausnir segir Árni enga eina töfralausn vera á vandamálinu. „Það er ekki alveg víst að þetta ástand sem við erum að sjá núna sé af mannavöldum. Hins vegar hafa menn litið svo á að eina leiðin til þess að breyta því sé að takmarka næringarefnaflæði í vatnið. Við getum þá ekki gert það öðruvísi heldur en að reyna að takmarka skólp og annan úrgang frá mönnum, til dæmis afrennsli frá landbúnaði eða landgræðslu,“ útskýrir hann.
Á góðu sumri eru mýflugurnar við Mývatn þrjú til fjögur þúsund milljarðar talsins, sem kemur ekki á óvart miðað við þann fjölda sem tók á móti blaðamanni og ljósmyndara. Árni segir fleiri en eina kenningar kenningu vera í gangi um drifkraftana bak við sveiflur í lífríkinu í Mývatni. Sú tilgáta sem unnið er með núna er að mýflugurnar viðhaldi sveifluganginum með því að éta upp sína eigin fæðu á vatnsbotninum. „Það eru líka kenningar um að fiskar stjórni þessu öllu saman. Smáfiskar gætu gert það í efri þrepum á fæðukeðjunum en þeir virðast ekki hafa áhrif á sveiflur í lífinu á botninum. Það er ekkert sem bendir til þess en það tekur tíma að vinsa út þessar kenningar og afgreiða þær. Það tekur heilan starfsaldur, ekki bara eins manns heldur margra rannsóknarhópa. Við vitum mjög mikið en þetta tekur tíma.“
Anthony Ragnar Ives, prófessor við háskólann í Wisconsin, var staddur í húsakynnum Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn ásamt aðstoðarfólki sínu og nemendum, þegar blaðamaður og ljósmyndari litu inn.
Hann er einn fremsti vistfræðingur heims og hefur einnig gömul tengsl við Ísland því foreldrar hans kynntust á Mývatni.
Um tíu ára verkefni er að ræða hjá Ives og segist hann í hógværð sinni vera að reyna að gera það sem Árni Einarsson hefur verið að gera upp á eigin spýtur síðastliðin 35 ár. „Við erum að halda áfram með það sem hann byrjaði á,“ segir Ives. „Við svörum alls konar spurningum og því fleiri sem við svörum því fleiri er ósvarað. Það er einmitt þannig sem svona rannsóknir eiga að vera.“
Markmið hans eru tvö, annars vegar að komast að því hvers vegna mýið er stundum mikið og stundum lítið og hins vegar að skilja hvernig vistkerfið í vatninu virkar í heild.
„Við vitum í aðalatriðum af hverju mýið er stundum mikið og stundum ekki en við viljum vita meira um af hverju fjöldinn hrynur og nær sér svo aftur á strik svona fljótt,“ segir hann. „Þetta gerist á mjög skrítinn hátt. Það er erfitt að spá fyrir um hegðunarmynstur mýsins og það finnst mér mjög áhugavert. Oft þegar þú sérð sterkt mynstur í vistkerfum er verið að vinna með eitthvað sem er fyrirsjáanlegt en hérna er raunin önnur. Þetta er því ákveðin kennslustund í vistfræði. Þótt þú sjáir sterkt mynstur þá geturðu ekki endilega spáð fyrir um það.“
Að sögn Ives snýst hinn hluti verkefnsins um að nýta upplýsingarnar um mýið til að skilja hvernig vistkerfið í Mývatni virkar.
Hann segir massann af mýi sem kemur upp úr vatninu á vori vera á við tíu hnúfubaka að þyngd. „Mýið er eins konar áburður. Í kringum vatnið er mikill grasvöxtur sem þú sérð hvergi annars staðar í nágrenninu. Mikið af honum er vegna áburðar frá mýinu,“ útskýrir hann.