Um 400 manns búa í Skútustaðahreppi og þurfa þeir að þjónusta þann mikla fjölda erlendra ferðamanna sem þangað kemur á hverju ári.
Helgi Héðinsson rekur ferðaþjónustufyrirtækið Hótel Dimmuborgir við Mývatn ásamt fjölskyldu sinni. Hann er einnig í sveitarstjórninni, er formaður skipulagsnefndar og formaður Veiðifélags Mývatns.
„Þetta er lítið samfélag og við erum að fást við gríðarlega krefjandi viðfangsefni. Þetta eru meira en 1.000 ferðamenn per íbúa sem heimsækja okkur á ári hverju,“ segir Helgi. „Við erum algjört öfgadæmi um að tekjur í ferðamennsku sem koma í ríkissjóð skili sér ekki nægilega vel til sveitarfélaga. Við þurfum að fá miklu meira af tekjunum til að styrkja innviðina.“
Hann tekur þó fram að Mývetningar séu reynslumiklir þegar kemur að ferðaþjónustu. Betur má samt ef duga skal. „Mývatn hefur verið mjög vinsæll ferðamannastaður í hundruð ára í raun og veru. Við verðum að sjálfsögðu vör við þessa ofboðslegu fjölgun sem er að verða á ferðamönnum sem koma til Íslands en menn eru vel undir það búnir. Innviðirnir eru bærilegir en mættu samt vera sterkari.“
Í minnisblaði sem Skútustaðahreppur sendi inn við gerð fjárlaga fyrir árið 2016 kemur fram að hreppurinn þurfi að ráðast í umfangsmiklar úrbætur á frárennslismálum, m.a að kröfu Umhverfisstofnunar. Mikið hefur verið rætt um þessi mál að undanförnu og segir Helgi umræðuna hafa verið einsleita.
„Það hefur verið voðalega heillandi blaðaefni að skrifa um klóakmálin og að hérna sé allt í skrúfunni en þetta er alls ekki þannig. Við sinnum okkar málum eins og annars staðar á landinu en vandinn er að við búum við viðkvæmari viðtakanda og þurfum að gera enn betur,“ segir Helgi og á við Mývatnið sjálft. „Það er viðfangsefni sem við þurfum aðstoð ríkisins við að sinna því við ráðum ekki við það sjálfir,“ bætir hann við.
„Maður heyrir það stundum í umræðunni eins og Mývetningar séu allir drullusokkar og sóðar. Það er alls ekki þannig. Við viljum hafa allt á hreinu og menn eru að vanda sig. Við stöndum einfaldlega frammi fyrir viðfangsefni sem 400 manna samfélag ræður ekki við. Að byggja þessi hreinsivirki er dýrt og það er flókið og dýrt að reka þau. Krafan er stíf og við þurfum aðstoð til að standa undir henni.“
Á annan tug hótel og gistiheimila er á svæðinu og að sögn Helga eru þau langflest rekin af heimamönnum. „Flest eru þetta gömul og rótgróin fyrirtæki. Heimamenn hafa séð tækifæri í því að byggja þau upp hægt og rólega. Hérna róa menn allir í sömu átt að gera þetta vel og sinna gestunum okkar myndarlega,“ segir hann.
Ferðamennirnir ganga flestir vel um Mývatn en gera þarf betur í landvörslu að mati Helga. Fleiri hendur vanti til að sinna straumnum sem kemur þangað. Framlög til landvörslu hafi verið skorin niður á sama tíma og traffíkin hafi stóraukist.
„Heilt yfir held ég að Mývetningar séu þolinmóðir gagnvart ferðamönnum. Þetta hefur verið stærsta atvinnugreinin um nokkurt skeið og við erum að reyna að taka vel á móti þeim. Það eru forréttindi að búa í Mývatnssveit. Þetta er algjör náttúruperla og það er ástæðan fyrir því að fólkið vill heimsækja okkur.“
Helgi hefur verið fulltrúi Veiðifélags Mývatns í samstarfshópi sem ráðherra skipaði um lífríkið í Mývatni. Veiðifélagið tengdist einnig tökunum á Hollywood-myndinni Fast 8 sem stóðu yfir fyrr á árinu. „Þeir voru úti á vatni á veiðitímanum og við þurftum að passa að menn tækju tillit hver til annars,“ segir hann um afskipti félagsins af tökunum.
„Þetta gekk frábærlega og sennilega er þetta stærsta kvikmyndaverkefni sem hefur verið í Mývatnssveit,“ bætir hann við og telur myndina hafa verið þá fyrstu sem hafi verið tekin úti á vatninu. Áður hafa myndir á borð við Prometheus, Oblivion og Star Wars: The Force Awakens verið að hluta til teknar upp í Mývatnssveit, ásamt sjónvarpsþáttunum Game of Thrones. „Einhverjum fannst ganga dálítið mikið á en aðrir voru hrifnir. Ég held að þetta hafi farið nægilega vel fram til að allir séu sáttir.“