Leit stendur enn yfir að breskum göngumanni sem varð viðskila við samferðafólk sitt í gærmorgun þegar það gekk Reykjaveg, norðan Kleifarvatns, á Reykjanesi. Það hafði gist við Selsvelli á Reykjanesi yfir nótt en maðurinn lagði af stað á undan ferðafélögum sínum.
Ætluðu þeir að ganga frá Selsvöllum að Djúpavatni, þaðan af Kaldárseli og yfir í Bláfjöll.
Nú taka um 150 björgunarmenn þátt í aðgerðum en veður á svæðinu er ekki gott til leitar, samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Skyggni er víða takmarkað vegna þoku og rigningar.
Vísbending barst frá íslenskum göngumanni nú í kvöld um að hann hefði séð viðkomandi í dag en ekki hefur verið staðfest, án vafa, að um sama mann sé að ræða. Þessi vísbending er þó nýtt við skipulag leitarinnar.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur óskað eftir upplýsingum um göngumanninn, Colin Smith, 58 ára. Hann er meðalmaður í vexti og er meðfylgjandi ljósmynd ný af honum.
Þeir sem einhverjar upplýsingar hafa eru beðnir að hafa samband við lögreglu í s. 444-1000 eða Landsbjörg s. 841-5012
Frétt mbl.is: Leitað að erlendum göngumanni