Hornsteinn lagður að Stofnun Vigdísar

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, lögðu í dag, á kvennréttindadaginn 19. júní, hornstein að nýbyggingu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

Byggingin stendur við Brynjólfsgötu 1 og mun hýsa Vigdísarstofnun, alþjóðlega miðstöð tungumála og menningar, sem mun starfa undir merkjum UNESCO. Þá verður í húsinu aðstaða fyrir fræðslu- og upplifunarsetur, gagnasafn og heimasvæði tungumála, fyrirlestra- og ráðstefnuhalds og aðstaða fyrir alþjóðlegt vísindasamstarf og erlenda gestafræðimenn.

Þá verður aðstaða einnig nýtt við kennslu og rannsóknir í tungumálum sem kennd eru við Háskóla Íslands auk þess sem Vigdísarstofa verður í byggingunni en þar má fræðast um líf og störf Vigdísar

„Þetta var skemmtileg athöfn og mjög spennandi að við skulum, bara eftir rúmlega ár, vera komin á þennan punkt að leggja hornstein að húsinu og stefnum að því að opna það á vormánuðum 2017,“ sagði Jón Atli í samtali við mbl.is. Stefnan er að haldin verði opnunarhátíð á afmælisdegi Vigdísar, 15. apríl 2017.

Karlakórinn Fóstbræður söng við athöfnina en henni stjórnaði Auður Hauksdóttir, forstöðumaður stofnunarinnar. „Þeim fórst þetta verk svo vel úr hendi, þeim rektor og Vigdísi. Sýndi það sig nú greinilega að það eru ekki bara bækurnar og fræðimennskan sem þeim lætur vel að vinna,“ sagði Auður létt í bragði. „Það var bæði vel mætt og svo lék veðrið við okkur." Hún segir ánægjulegt hversu jákvæð viðbrögðin hafi verið við verkefninu en það hefur verið kynnt bæði hérlendis og erlendis við góðar undirtektir.

Í ræðu sinni við athöfnina sagði Vigdís Finnbogadóttir að hún væri „afar stolt af því að Íslendingar, sem búa við það lán að hafa tekist að varðveita aldagamalt tungumál sitt, skuli með byggingu þessa húss geta minnt á ómetanlegt gildi tungumála heimsins með þá visku sem þau geyma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert