Allar björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á höfuðborgarsvæðinu og einhverjar á Suðurnesjum hafa verið kallaðar út til leitar að erlendum göngumanni.
Svo virðist sem maðurinn hafi orðið viðskila við samferðafólk sitt í gær við Sveifluháls norðan Kleifarvatns, en þau ætluðu að hittast á tjaldstað, að því er segir í tilkynningu frá Landsbjörgu.
Þegar hann skilaði sér ekki þangað í gærkvöldi hafði fólkið samband við lögreglu í dag.
Samhliða fyrstu viðbrögðum leitarinnar er verið að reyna að afla upplýsinga um manninn og ferðaáætlun hans, enda margt óljóst á þessu stigi, segir í tilkynningunni.
Reikna má með að um hundrað leitarmenn verði komnir á svæðið innan stundar en leitað verður með drónum, á fjórhjólum og jeppum og auðvitað gangandi.