Lögregla hefur lokað Suðurlandsvegi við Reynishverfi, skammt vestan við Vík í Mýrdal.
Þar átti sér stað alvarlegt umferðarslys þar sem vörubíll valt. Viðbragðsaðilar eru við vinnu á vettvangi og er lokun nauðsynleg til að tryggja öryggi þeirra og vernda rannsóknarhagsmuni.
Lögregla biður vegfarendur að sýna tillitssemi og biðlund. Búast má við að lokun geti varað í nokkrar klukkustundir. Nánari upplýsingar eru ekki fyrirliggjandi að svo stöddu en verða veittar þegar þær berast.
Uppfært 13:28
Vegfarandi á vettvangi hafði samband við mbl.is og benti á að umferðin væri stopp við Gatnabrún við þjóðveg 1. Ljóst væri að tafir væru miklar.
Uppfært kl. 13.42
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi virðist sem vörubíllinn hafi oltið en bíllinn er á hvolfi við veginn. Ekkert er vitað um aðdraganda slyssins að svo stöddu.
Gera má ráð fyrir að lokunin standi yfir í nokkrar klukkustundir en rannsaka þarf vettvanginn, ná bílnum upp á veginn og flytja hann í burtu.