Strætó bs. hefur verið dæmt af Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða Iceland Excursions Allrahanda ehf. 100 milljónir kr. í skaðabætur. Dómurinn opinberar spillingu í stjórn byggðasamlagsins á árinu 2010, að mati Þóris Garðarssonar, stjórnarformanns Allrahanda.
„Spillingin virðist hafa náð upp í stjórn fyrirtækisins sem er skipuð sveitarstjórnarmönnum á höfuðborgarsvæðinu. Það er mjög alvarlegt,“ sagði Þórir í viðtali í Morgunblaðinu í dag. Ljóst sé af dóminum og gögnum málsins að stjórn Strætó bs. hafi tekið tilboði Hagvagna hf. sem uppfyllti ekki útboðsskilyrði. Í útboðinu voru gerðar strangar kröfur til gæða og búnaðar strætisvagna sem nota átti. Hagvagnar hafi engu leynt um sína vagna en Strætó bs. hafi ekki farið eftir útboðsskilmálunum. Einnig komi fram í gögnum málsins að stjórnendur Strætó bs. hafi varað stjórnina við að hafa makaskipti á strætisvögnum við Hagvagna hf. svo þeir gætu uppfyllt skilyrði útboðsins. Þórir sagði að þessi hegðan hefði rýrt traustið á Strætó bs.
„Efnislega kom dómurinn okkur ekki á óvart en við áttum von á að skaðabæturnar yrðu hærri með vísan til annarra dóma sem fallið hafa í sambærilegum málum,“ sagði Þórir. Allrahanda krafðist 530 milljóna króna skaðabóta en voru dæmdar 100 milljónir í bætur auk vaxta og málskostnaðar. Þórir sagði að dóminum yrði áfrýjað til Hæstaréttar og bætti við: „Þetta útboð gæti kostað Strætó bs. á annan milljarð króna.“