Vakin var athygli á því á Facebook-síðunni Samgönguhjólreiðar í gærkvöldi að strengur hafi verið strengdur þvert yfir hjólreiðastíg í Kópavogi. Lögreglan lítur málið alvarlegum augum.
Steinþóra Þórisdóttir var að hjóla ásamt börnum sínum í Kársnesinu í gær þegar hún varð vör við kaðal sem strengdur hafði verið þvert yfir hjólreiðastíginn sem liggur við fjöruna fyrir neðan Kópavogstún. „Þar fyrir neðan er svolítið bratt niður, akkúrat þarna þar sem þetta er, þannig að það er búið að setja svona kaðlagirðingu meðfram fjörunni,” segir Steinþóra. Mjór kaðallinn sem var slitinn frá girðingunni hafði verið strengdur þvert yfir stíginn og hnýttur fastur við ljósastaur hinu megin. „Hann var það fastur að það tók okkur svolítinn tíma að reyna að losa hann. Það var búið að gera einhvern rosalega fínan hnút með einhverri lykkju og voða fínt,” útskýrir Steinþóra.
Hjólreiðamaður sem nýlega hafði tekið fram úr Steinþóru og börnum hennar kom fyrstur að kaðlinum. Honum var nokkuð brugðið en náði sem betur fer að nema staðar áður en hann lenti á kaðlinum. „Maðurinn sem var á undan okkur var nýbúinn að snúa við, þannig þetta gerðist á mjög skömmum tíma, hann sagðist sjálfur hafa verið að hjóla þarna innan við tíu mínútum áður,” segir Steinþóra, en þau urðu þó ekki vör við neitt grunsamlegt í nágrenninu.
„Í rauninni er þetta bara stórhættulegt hefði skyggnið verið verra,” segir Steinþóra en hún náði að stoppa sjö ára son sinn af í tíma, en kaðallinn var strengdur í um það bil hálshæð drengsins á hjólinu. Kunningi Steinþóru tilkynnti lögreglu um strenginn í gegnum Facebook-síðu lögreglunnar sem svaraði um hæl og sagði að málið yrði kannað.
Lögreglan var ekki búin að skoða aðstæður þegar mbl.is hafði samband en málið er litið alvarlegum augum. Það er lítið um umkvartanir vegna hjólreiðamanna í Kópavogi samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.
„Auðvitað er þetta háalvarlegt mál, að fólk sé að strengja yfir einhvers konar bönd,“ segir fulltrúi frá lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu í samtali við mbl.is.
Þetta er ekki fyrsta málið af þessum toga en árið 2014 slasaðist hjólreiðamaður þegar hann hjólaði á vír sem strengdur hafði verið yfir hjólreiðastíg við Elliðaárósa.
Frétt mbl.is: Ráðgátan um vírinn óleyst