Tala um Ísland á hverjum degi

Vladimir og Irina höfðu það gott í Njarðvík en bíða …
Vladimir og Irina höfðu það gott í Njarðvík en bíða nú örlaga sinna í Frakklandi. Aðsend mynd

„Við bíðum bara. Þetta gæti tekið marga mánuði,“ segir Irina Seibel en nú eru um tveir mánuðir síðan að henni og fjölskyldu hennar var vísað úr landi en þau koma frá Úsbekistan. Fjölskyldan bjó í Njarðvík í um átta mánuði en var vísað úr landi í apríl án þess að umsókn þeirra væri tekin til meðferðar hjá Útlendingastofnun.  Fjölskyldan var flutt frá úthverfi Parísar til smáþorpsins Breil sur Roya í suðaustur Frakklandi fyrir um mánuði en þau sóttu um hæli í Frakklandi 18. maí.

Fjöl­skyld­an sam­an­stend­ur af þeim Ir­ina og Vla­dimir Sei­bel og börn­um þeirra, Mil­inu sem verður tíu ára á fimmtudaginn, og tví­bur­unum Sam­ir og Kemal sem eru sex ára, en mbl.is og Sunnu­dags­blað Morg­un­blaðsins hafa fjallað um mál þeirra síðustu miss­eri. Fjöl­skyld­an hrakt­ist frá heim­kynn­um sín­um í Úsbek­ist­an vegna trú­arof­sókna en Vladimir var m.a. fangelsaður í heimalandinu eftir að fjölskyldan tók upp baptistatrú.

Irina ásamt sonum sínum, Sam­ir og Kemal
Irina ásamt sonum sínum, Sam­ir og Kemal Aðsend mynd

Í Njarðvík hafði fjölskyldan komið sér vel fyrir, börnin höfðu farið í skóla og lært íslensku, og vonuðust Irina og Vladimir eftir því að fá hæli til þess að geta byrjað að vinna. Ekkert varð úr því þar sem umsókn þeirra var aldrei tekin fyrir.

Erfitt að tala ekki frönsku

Aðspurð hvernig lífið sé í Breil sur Roya segir Ir­ina fjölskylduna hafa það ágætt. Það er þó erfitt að aðlagast því þau tali ekki frönsku. Þá hafi börnin prófað að fara í skóla en þótt það nokkuð erfitt vegna tungumálaörðugleika. Að sögn Irina vilja þau ekkert frekar en að fara aftur til vina sinna á Íslandi. Hún segir að börnin tali um Ísland á hverjum degi.

Fjölskyldan býr í íbúð í þorpinu sem frönsk yfirvöld útveguðu  þeim. Þau hafa þó hingað til aðeins lifað á fjárstyrkjum frá íslenskum vinum þeirra sem hófu söfnun til styrktar fjölskyldunni þegar þeim var vísað úr landi. Irina segist vera gríðarlega þakklát íslenskum vinum fjölskyldunnar en einnig frönskum yfirvöldum fyrir að útvega þeim húsnæði.

Milina ásamt bræðrum sínum í lest.
Milina ásamt bræðrum sínum í lest. Aðsend mynd

„Íbúðin er ágæt en hér er voða lítið hægt að gera. Það er ekkert sjónvarp eða internet en við kvörtum ekki.“ Irina vonast eftir því að fá fjárstyrk frá frönskum yfirvöldum í næsta mánuði en það er ekki alveg komið á hreint hvort þau eigi rétt á því.

Irina segist ekki vilja hugsa til þess í hvaða aðstæðum fjölskyldan væri ef að íslenskir vinir þeirra hefðu ekki hjálpað þeim. „Við erum þeim svo ótrúlega þakklát, ég veit ekki hvar við værum án þeirra.“

Þeir sem vilja styrkja fjöl­skyld­una geta lagt inn á eft­ir­far­andi reikn­ing sem stofnaður var af vinum fjölskyldunnar í Njarðvík.

159-05-60366
Kt. 191085-3619

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert