Secret Solstice biðst afsökunar á töfum

Aðstandendur Secret Solstice segja sér kappsmál að sem flestar sveitir …
Aðstandendur Secret Solstice segja sér kappsmál að sem flestar sveitir komi fram utandyra. mbl.is/Styrmir Kári

Starfsfólk Secret Solstice-tónlistarhátíðarinnar biðst afsökunar á röðum og öðrum uppákomum sem spilltu hátíðinni fyrir sumum tónlistargestum, í yfirlýsingu sem Secret Solstice sendi frá sér.

„Á risastórri hátíð með þúsundum gesta má alltaf reikna með að upp komi atvik sem ekki er unnt að sjá fyrir. Það gerðist því miður um helgina. Við biðjum alla gesti okkar sem urðu fyrir óþægindum afsökunar. Það á til dæmis við um tafirnar við að koma gestum inn í Laugardalshöll til að sjá Radiohead. Það tók of langan tíma. Allir gestir voru hins vegar komnir inn 50 mínútum áður en tónleikunum lauk. Einnig kom okkur í opna skjöldu sú krafa Radiohead að leyfa engar bjórdósir í Höllinni en gæslumaður frá hljómsveitinni fylgdi þeirri kröfu fast eftir,“ segir í yfirlýsingunni.

Það sé þeim sem að hátíðinni standa kappsmál að Secret Solstice að hljómsveitir komi fram utandyra á þessum bjartasta tíma ársins, Radiohead hafi hins vegar gert kröfu um að spila innandyra og þess vegna hafi tónleikar hljómsveitarinnar verið haldnir í Laugardalshöllinni.

Ófyrirséðar tafir í millilandaflugi hafi einnig haft áhrif og komu Die Antwoord til landsins á sunnudag. „ Við stóðum frammi fyrir tveimur vondum kostum vegna Die Antwoord, að aflýsa tónleikunum eða færa þá inn í hús (Hel). Við tókum síðari kostinn þótt við gerðum okkur strax fulla grein fyrir að því að færri kæmust að en vildu,“ Það sé því líka ástæða til að hrósa starfsfólki okkar og sjálfboðaliðum sem hafi unnið þrekvirki við að ná því að setja upp tónleikana með svona stuttum fyrirvara.

„Það er þekkt fyrirbæri á tónlistarhátíðum bæði hér heima og erlendis að færri komast að en vilja á einstaka viðburði. Við því er ekkert að segja.

Við höfum fengið margar athugasemdir síðustu daga. Takk fyrir þær. Það er margt sem fór vel en annað sem betur hefði mátt fara. Við erum samheldinn hópur af einstaklingum með ástríðu fyrir tónlist. Við viljum fá tónlistarmenn hvaðanæva úr heiminum á sólstöðuhátíð í Reykjavík. Markmiðið hefur alltaf verið að skapa eitthvað einstakt í tónlistarsögu Íslendinga sem allir geta notið. 

Við erum gríðarlega stolt af því sem við höfum gert á aðeins þremur árum. Við munum halda ótrauð áfram og skipuleggja glæsilega Secret Solstice-hátíð að ári.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka