Banaslys á Öxnadalsheiði

Einn lést og annar er alvarlega slasaður eftir harðan þriggja bíla árekstur á Öxnadalsheiðinni um tíuleytið í morgun.

Að sögn lögreglu hafa 14 manns verið fluttir burt af slysstað lítið eða ekkert slasaðir, en áreksturinn varð er bíll var að taka fram úr annarri bifreið í þann mund er lítil rúta á norðurleið kemur á móti bílunum. Valt bíllinn sem var að fara fram úr út af veginum, en rútan og hinn bíllinn skullu saman.

Ekki er hægt að greina nákvæmar frá málavöxtu á þessu stigi málsins að því er segir á facebooksíðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

Í rútunni voru 12 farþegar auk bílstjóra, í annarri bifreiðinni voru tveir einstaklingar og einn í hinni. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar lést og er farþegi þeirrar bifreiðar alvarlega slasaður. 

Vegna slyssins var þjóðvegi 1 lokað við Varmahlíð og Ólafsfjarðarveg og er vegfarendum bent á leið um Ólafsfjarðarveg til Skagafjarðar, en Öxnadalsheiðin verður lokuð um óákveðinn tíma.

Uppfært kl. 14:05

Lögreglan biður fólk um að sýna biðlund en talsverðar tafir eru bæði í og við Siglufjarðargöng og Ólafsfjarðargöng vegna þeirrar miklu umferðar sem þar er vegna lokunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka