Ólafur Baldursson hefur verið endurráðinn framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala til næstu 5 ára.
Starf framkvæmdastjóra lækninga er skilgreint í lögum um heilbrigðisþjónustu. Hann ber ábyrgð á sérstökum verkefnum sem fjalla um gæði og þróun lækninga, þvert á skipulagseiningar spítalans, og ber í samvinnu við framkvæmdastjóra hjúkrunar ábyrgð á rekstri þriggja deilda; gæða- og sýkingavarnardeildar, menntadeildar og vísindadeildar, að því er segir í tilkynningu frá Landspítalanum.
Hlutverk deildanna er að móta stefnu, samræma, styðja og hafa eftirlit með gæðamálum og sýkingavörnum, vísindastarfi og kennslumálum. Framkvæmdastjóri lækninga tekur þátt í ráðningu yfirlækna og er umsjónaraðili sjúkraskrár spítalans. Læknum og yfirlæknum spítalans ber að hlíta ákvörðunum framkvæmdastjóra lækninga um fagleg málefni.
Ólafur lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1990. Hann lauk sérnámi og sérfræðiprófum (e. American board of internal medicine) í lyflækningum og lungnalækningum við háskólasjúkrahúsið í Iowa City í Bandaríkjunum árið 2000. Samhliða sérnámi stundaði hann vísindarannsóknir undir handleiðslu próf. Michael J. Welsh, og lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands 2004, sem byggðist á þeim rannsóknum. Ólafur stofnaði til samstarfs við vísindamenn við HÍ og kom hópurinn m.a. á fót nýju frumuræktunarlíkani. Uppgötvanir hópsins urðu grunnur að stofnun sprotafyrirtækisins EpiEndo Pharmaceuticals, sem vinnur nú að hönnun nýrra lyfja.
Ólafur hefur birt vísindagreinar í innlendum og erlendum fræðiritum, sinnt akademískum leiðbeinanda- og prófdómarastörfum hérlendis og í Svíþjóð. Hann starfaði sem lektor í sjúkdómafræði við lyfjafræðideild HÍ 2004-2009, og er nú stundakennari við heilbrigðisvísindasvið skólans, segir í tilkynningu.
Ólafur starfaði á skrifstofu kennslu-, vísinda-, og þróunar Landspítala frá 2005-2007, m.a. við endurbætur á skipulagi kandídatsárs. Hann var aðstoðarmaður framkvæmdastjóra lækninga 2007-2009, starfandi framkvæmdastjóri lækninga 2009-2011, og skipaður frá 2011-2016. Ólafur hefur starfað sem lyflæknir og lungnalæknir frá árinu 2000 og sinnir nú göngudeildarmóttöku einu sinni í viku og vaktþjónustu u.þ.b. einu sinni í mánuði, segir ennfremur.