„Girl power“ alla leið

Halla Tómasdóttir var hress þegar hún mætti stuðningsmönnum sínum á …
Halla Tómasdóttir var hress þegar hún mætti stuðningsmönnum sínum á Bryggjunni í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Bókin „Frá tveimur prósentum og upp í þrjátíu prósent“ gæti verið væntanleg ef marka má orð Höllu Tómasdóttur sem mætti stuðningsmönnum sínum á Bryggjunni brugghúsi á Granda rétt í þessu. Sagðist hún glettin taka við tillögum um titla í kvöld.

Fylgi Höllu hefur rokið upp í síðustu könnunum og í kvöld er hún með 29,4% greiddra atkvæða sem alls eru 87 þúsund talsins. Í síðustu könnun Gallup sem birt var í gær mældist hún hins vegar með 18,6% og þar áður var fylgið 12,5%. Í lok maí var fylgið í kringum 2%.

„Ég stend hérna í kvöld og er bara þakklát,“ sagði Halla glöð í bragði við stuðningsmenn. „Ef þið eruð ekki sigurvegarar að þá veit ég ekki hver er það.“

Hún þakkaði kærlega fyrir sig og benti á hún hefði lagt af stað í framboð sem algjör viðvaningur. Unnið hafi verið eftir fjórum leiðarljósum sem eru gagn, gleði, gagnsæi um allar spurningar auk þess sem ætlunin hafi verið að taka „girlpower“ á þetta alla leið.

Mikil stemmning er á kosningavöku Höllu.
Mikil stemmning er á kosningavöku Höllu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Engin kona betur gift

Þakkaði hún börnum sínum sérstaklega fyrir og vísaði til þess að þau hefðu komið þrisvar sinnum fram í sjónvarpi í dag og staðið sig eins og hetjur. Þá þakkaði hún eiginmanni sínum einnig og sagði enga konu vera betur gifta.

Að lokum óskaði Halla þeim Guðna og Elízu innilega til hamingju. Sagðist hún fullviss um að þau yrðu landi og þjóð til sóma og bætti við að þau hefðu hennar stuðning.

Halla þakkaði stuðningsmönnum kærlega fyrir.
Halla þakkaði stuðningsmönnum kærlega fyrir. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert