Mikill mannfjöldi kom saman við heimili Guðna Th. Jóhannessonar, nýkjörins forseta Íslands, við Tjarnarstíg á Seltjarnarnesi í dag. Guðni sagði í ávarpi sínu að landsmenn hefðu í gær kosið nýjan þjóðhöfðingja. Hann hefði engu að síður vaknað í morgun sem sami maður og áður. Hann vildi halda áfram að vera einn af þjóðinni.
„Með ykkar hjálp heiti ég því að leggja mig allan fram í því mikla embætti sem ég tek senn við,“ sagði Guðni ennfremur í erindi sínu og var honum ákaft fagnað að því loknu. Viðstaddir sungu síðan afmælissönginn fyrir nýkjörinn forseta sem á afmæli í dag.
Það næsta sem tekur við hjá Guðna er að fara á leikinn gegn Englendingum á EM í knattspyrnu karla í Nice í Frakklandi og hvetja íslenska landsliðið.