Reyna að koma sem flestum til Parísar

Íslensku landsliðsmennirnir fagna sigri í kvöld.
Íslensku landsliðsmennirnir fagna sigri í kvöld. AFP

„Nú fer vinna af stað við það að reyna að koma sem flestum sem vilja til Parísar um helgina,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við mbl.is.

Með sigri sínum á Englandi í kvöld komst íslenska landsliðið í átta liða úrslit Evrópumótsins í knattspyrnu. Mun liðið leika gegn gestgjöfunum, Frökkum, sunnudagskvöldið 3. júlí á þjóðarleik­vangi Frakka, Stade de France.

Guðjón segir að úrslitin í kvöld hafi ekki verið eitthvað sem þeir hjá Icelandair hefðu almennt reiknað með, eins og gefur að skilja. Nú verði engu að síður brugðist við stöðunni og þeim mikla áhuga sem verður á flugmiðum til frönsku höfuðborgarinnar næstu helgi.

„Við erum með þrjár flugferðir á dag en ef að líkum lætur verður það fljótt að fyllast.

Þá er spurning hvaða aðrar leiðir bjóðast. Það er auðvitað þannig að það er hægt að komast til Parísar í gegnum London, Brussel, Amsterdam, Kaupmannahöfn og ýmsar aðrar borgir.

En síðan reynum við að finna flugvélar í beint flug, en það er ekki alveg einfalt á þessum árstíma að finna lausar flugvélar,“ bendir Guðjón á.

Jafnframt fari það eftir því hvernig fólki muni ganga að afla sér miða á leikinn sjálfan.

Stade de France tek­ur rúm­lega 81 þúsund áhorf­end­ur, en Alli­anz Ri­viera-leik­vang­ur­inn í Nice, sem leikið var á í kvöld, tek­ur ein­ung­is rúm­lega 35 þúsund. Íslend­ing­ar ættu því að eiga betri mögu­leika á að næla sér í miða á leik­inn á sunnu­dag, en þó ber að hafa í huga að ís­lensku strák­arn­ir munu etja kappi við gest­gjaf­ana og eft­ir­spurn­in eft­ir miðum því vænt­an­lega gríðarleg.

Stemningin var gríðarleg á leikvanginum í Nice í kvöld.
Stemningin var gríðarleg á leikvanginum í Nice í kvöld. AFP
Kolbeinn Sigþórsson og Gylfi Þór Sigurðsson eftir leikinn.
Kolbeinn Sigþórsson og Gylfi Þór Sigurðsson eftir leikinn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert