Rúmlega 30 seinkanir á 36 tímum

Talsverðar seinkanir hafa verið hjá Icelandair og WOW síðustu daga.
Talsverðar seinkanir hafa verið hjá Icelandair og WOW síðustu daga. Mynd/Samsett mynd

Á rúmlega einum og hálfum sólarhring hefur 23 ferðum hjá Icelandair og átta hjá WOW air seinkað um klukkustund eða meira. Mesta seinkunin var um átta tímar. Einnig hafa orðið seinkanir á flugi annarra flugfélaga. Þetta má sjá á áætluðum komutímum og svo staðfestum tímum á vefsíðu Keflavíkurflugvallar. Talsmenn flugfélaganna segja seinkanirnar stafa af fjölda ástæðna, en ekki einu atriði. M.a. valdi framkvæmdir á flugstöðinni hluta þeirra seinkana sem um ræðir.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við mbl.is að tafirnar síðasta einn og hálfa sólarhring séu áhrif af fyrri seinkunum. „Það hefur tekið lengri tíma að vinna það til baka en vonast var eftir,“ segir hann. Þá hafi bilun komið upp í töskukerfi á flugvellinum í nótt og leiðakerfið sé viðkvæmt fyrir skekkjum í áætlun sem hafi orðið upp á síðkastið.

Flug Icelandair frá Frankfurt til Keflavíkur sem átti að lenda um miðnætti frestaðist til tæplega níu í morgun. Guðjón segir að ástæða þess hafi verið að félagið rétt missti af tímaramma til að fara í loftið í gærkvöldi, en næturlokun er á flugvellinum. Farþegar voru því sendir á nærliggjandi hótel og fóru í loftið í morgun.

Frá Leifsstöð.
Frá Leifsstöð. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Hann segir eðli leiðakerfisins valda því að ein seinkun hafi áhrif inn í kerfið. Þannig séu tveir stórir tengitímar hér á landi á hverjum sólarhring; um morguninn þegar vélar komi frá Norður-Ameríku og svo seinni partinn þegar sömu vélar komi frá Evrópu. „Þetta hefur reynst erfitt í vor, of mikið um seinkanir,“ segir Guðjón, en flugfélögin hafa meðal annars þurft að takast á við verkfall flugumferðarstjóra.

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, segir að tafir hjá félaginu séu keðjuverkun frá fyrri töfum. Þá sé háannatími í Keflavík og einnig á flugvöllum erlendis. Segir hún að það hafi reynst félaginu erfitt að vinna upp þessar seinkanir og þá hafi komu- og brottfarartímar á flugvöllum gert það erfiðara.

Hún segir einnig að leiðakerfi WOW air hafi tvöfaldast á stuttum tíma og það sé að hluta byggt upp með tengifarþegum yfir hafið. Því geti einstaka seinkanir haft keðjuverkandi áhrif. Svanhvít nefnir einnig að framkvæmdirnar á flugvellinum hafi ekki hjálpað til, þótt þar horfi til betri vegar. Hún tekur þó fram að framkvæmdirnar hafi verið nauðsynlegar til að stækka völlinn.

Gunnar Sigurðsson hjá Isavia segir að undanfarið hafi ekkert stórt komið upp hjá flugstöðinni sem ætti að hafa valdið töfum. Segir hann að innritun hafi gengið nokkuð vel. Þá hafi farangursflokkunin og annað verið í góðu lagi, sem og vopnaleitin. Í nótt voru talsverðar tafir á afhendingu farangurs vegna framkvæmda við farangursböndin. Gunnar segir það þó ekki hafa áhrif á komu eða brottfarir flugvélanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert