Fjórir hestar sluppu og skelltu sér í útiskokk á Reykjanesbrautinni í morgun. Á myndbandinu hér að ofan má sjá hestana í góðum gír, en mbl.is fékk það sent frá vegfaranda í morgun.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu gengu þeir lausir í kringum Öldugötu í Hafnarfirði og Hafnarfjarðarkirkjugarð.
Sluppu hestarnir að öllum líkindum úr hesthúsum við Kaldárselsveg í nágrenninu. Lögreglan taldi að búið væri að hafa uppi á dýrunum, sem hefðu verið að skoða blómin í görðum nágrannanna.
Ekki náðist í umsjónarmenn hesthúsanna við vinnslu fréttarinnar.