Tveir karlmenn á fertugsaldri hafa verið ákærðir af embætti héraðssaksóknara vegna bruna í iðnaðarhúsi á Grettisgötu í mars á þessu ári. Er annar þeirra sagður hafa kveikt í slæðu sem var á stól í herbergi hans í húsinu og hent stólnum á dýnu og skilið brennandi dýnuna eftir inni í herberginu og þannig valdið eldsvoða sem hafi haft í för með sér almannahættu og eignatjón.
Hinn maðurinn er sagður hafa látið hjá líða að gera það sem í hans valdi stóð til að afstýra eldsvoðanum, tilkynna hann til slökkviliðs eða lögreglu eða kanna hvort einhver væri í húsinu þegar hann yfirgaf það ásamt meðákærða.
Mikil umfjöllun var um málið í mars, enda var bruninn stór og þar missti par aleiguna, en það bjó í íbúð sem einnig var vinnustofa. Kom fram í fréttum eftir brunann að slökkviliðið hefði ekki vitað að búið væri í húsinu þar sem íbúðin hefði verið ósamþykkt.
Fljótlega var sá sem ákærður er fyrir brunann handtekinn, en lögreglan gaf út að annar maður hefði einnig verið handtekinn en rannsókn leitt í ljós að sá hefði ekki kveikt eldinn sjálfur.
Í tilkynningu frá lögreglu frá því að maðurinn var handtekinn kemur fram að hann hafi játað að hafa valdið brunanum en einnig að hann hafi glímt við andleg veikindi og dvelji nú á viðeigandi stofnun. Í ákærunni er til vara krafist þess að manninum verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.