Ákærðir fyrir bruna á Grettisgötu

Stórtjón varð í eldsvoðanum við Grettisgötu og íbúar misstu aleiguna.
Stórtjón varð í eldsvoðanum við Grettisgötu og íbúar misstu aleiguna. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Tveir karlmenn á fertugsaldri hafa verið ákærðir af embætti héraðssaksóknara vegna bruna í iðnaðarhúsi á Grettisgötu í mars á þessu ári. Er annar þeirra sagður hafa kveikt í slæðu sem var á stól í herbergi hans í húsinu og hent stólnum á dýnu og skilið brennandi dýnuna eftir inni í herberginu og þannig valdið eldsvoða sem hafi haft í för með sér almannahættu og eignatjón.

Hinn maðurinn er sagður hafa látið hjá líða að gera það sem í hans valdi stóð til að afstýra eldsvoðanum, tilkynna hann til slökkviliðs eða lögreglu eða kanna hvort einhver væri í húsinu þegar hann yfirgaf það ásamt meðákærða.

Mikil umfjöllun var um málið í mars, enda var bruninn stór og þar missti par aleiguna, en það bjó í íbúð sem einnig var vinnustofa. Kom fram í fréttum eftir brunann að slökkviliðið hefði ekki vitað að búið væri í húsinu þar sem íbúðin hefði verið ósamþykkt.

Fljótlega var sá sem ákærður er fyrir brunann handtekinn, en lögreglan gaf út að annar maður hefði einnig verið handtekinn en rannsókn leitt í ljós að sá hefði ekki kveikt eldinn sjálfur.

Í tilkynningu frá lögreglu frá því að maðurinn var handtekinn kemur fram að hann hafi játað að hafa valdið brunanum en einnig að hann hafi glímt við and­leg veik­indi og dvelji nú á viðeig­andi stofn­un. Í ákærunni er til vara krafist þess að manninum verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.

Húsið skemmdis mikið í brunanum.
Húsið skemmdis mikið í brunanum. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert