Laun ráðuneytisstjóra hækka um mánaðamótin um hátt í 40% samkvæmt nýlegum úrskurði kjararáðs. Laun skrifstofustjóra hækka um 30%. Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.
Kjararáð úrskurðaði um laun ráðuneytis- og skrifstofustjóra í Stjórnarráði Íslands fyrr í mánuðinum. Lesa má úrskurðina hér og hér.
Samkvæmt úrskurðinum hækka laun skrifstofustjóra á bilinu 28 til 35 prósent og laun ráðuneytisstjóra um 36 til 37 prósent.
Í frétt Rúv kemur fram að mesta hækkunin sé til komin vegna yfirvinnu, en hún hækkar úr um það bil 50 þúsund krónum í nærri 500 þúsun krónur. Yfirvinnugreiðslur eru greiddar allt árið um kring, einnig í sumarleyfum.
Eftir hækkunina munu laun ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins verða 1,8 milljónir, í stað 1,1 milljón á mánuði áður. Hækkunin nemur 674 þúsund krónum.
Laun ráðuneytisstjóra annarra ráðuneyta hækka úr 1,1 milljón í rúmar 1,7 milljónir á mánuði.
Föst yfirvinna skrifstofustjóra fer úr 55 þúsund krónum í allt að 315 þúsund króna. Alls nemur hækkun þeirra á bilinu 330 þúsund krónum til 482 þúsund sem er hækkun upp á 28 til 35%.
Vegna fréttar Ríkisútvarpsins hefur kjararáð birt áréttingu á heimasíðu sinni. Er hún eftirfarandi:
Að gefnu tilefni vill kjararáð taka eftirfarandi fram:
Fyrir úrskurði kjararáðs um laun ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra sem kveðnir voru upp 16. júní síðastliðinn voru mánaðarlaun ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis samkvæmt launaflokki kjararáðs 502-142, eða 1.170.443 kr. Að auki fékk hann greiddar 33 einingar á mánuði. Heildarlaun hans voru 1.486.319 kr. á mánuði.
Mánaðarlaun annarra ráðuneytisstjóra voru samkvæmt launaflokki kjararáðs 502-141, eða 1.131.816 kr. Að auki fengu þeir greiddar 28 einingar á mánuði. Heildarlaun þeirra voru 1.399.832 kr. Mánaðarlaun skrifstofustjóra án mannaforráða eða sem heyra undir annan skrifstofustjóra voru samkvæmt launaflokki kjararáðs 502-132, eða 837.771 kr.
Mánaðarlaun skrifstofustjóra með mannaforráð voru samkæmt launaflokki kjararáðs 502-133, eða 866.128 kr. Mánaðarlaun skrifstofustjóra sem eru staðgenglar ráðuneytisstjóra voru samkvæmt launaflokki kjararáðs 502-134, eða 895.478 kr. Að auki fengu skrifstofustjórar greiddar 12-21 einingu á mánuði. Langflestir voru með 21 einingu á mánuði.
Heildarlaun langflestra skrifstofustjóra voru því 1.067.140 kr. Heildarlaun staðgengla voru 1.096.490 kr. Virði einingar breyttist ekki með úrskurðunum, það var bæði fyrir úrskurðina og eftir 9.572 kr. Eins og verið hefur greiðast einingar alla mánuði ársins, af því leiðir að ekki er greitt orlofsfé á einingar.