Rýnt í skattalistann

Listi yfir skattakónga Íslands var birtur í dag. Af 20 …
Listi yfir skattakónga Íslands var birtur í dag. Af 20 efstu greiðendum í fyrra voru 16 karlar og 4 konur.

Af tuttugu hæstu gjaldendum ársins í ár eru aðeins fjórar konur. Það er þrátt fyrir allt aukning frá því í fyrra, en þá voru aðeins þrjár konur á lista yfir hæstu gjaldendur. Aðeins tveir á listanum eru búsettir utan höfuðborgarsvæðisins, en í fyrra voru þeir sjö talsins. Í ár eru það aðeins þeir Kristján V. Vilhelmsson hjá Samherja sem greiddi 129 milljónir í gjöld og Þórlaug Guðmundsdóttir, bóndi frá Grindavík sem greiddi 101 milljón.

Enginn undir 40 ára á listanum

Yngst á listanum í ár er fjölmiðlakonan Inga Lind Karlsdóttir sem er fertug, en hún greiddi 80,3 milljónir í opinber gjöld. Elstur er Benedikt Sveinsson fjárfestir en hann er 78 ára gamall. Greiddi hann 80,4 milljónir á síðasta ári. Flestir á skattalistanum eru á milli 40 og 60 ára, eða 15 manns.

Í fyrra greiddu efstu 20 gjaldendur samtals 3,17 milljarða í gjöld, en í ár er talan nokkuð lægri eða 2,5 milljarðar. Munar þar mestu um að í fyrra greiddi efsti gjaldandinn, Þórður Rafn Sigurðsson, samtals 671 milljón í gjöld. Þá var hann Þorsteinn Sigurðsson sem var annar á listanum í fyrra með 305 milljónir í gjöld. Í ár var hæsta greiðslan aftur á móti 265 milljónir.

Fjórir á listanum eftir bónusgreiðslur frá ALMC

Fjórir af þeim tuttugu sem eru á listanum í ár eru núverandi eða fyrrverandi starfsmenn hjá ALMC. Félagið hét áður Straumur, en starfsmenn þess fengu í fyrra bónusgreiðslur upp á 3,3 milljarða vegna starfa sinna hjá félaginu. Christopher M. Perrin er númer tvö á listanum í ár, en hann er stjórnarformaður félagsins. Samtals greiddi hann 200 milljónir í opinber gjöld á síðasta ári. Jakob Már Ásmundsson er þriðji á listanum, en hann var áður forstjóri ALMC. Á síðasta ári námu greiðslur hans 193 milljónum.

Þeir Óttar Pálsson, lögmaður og stjórnarmaður félagsins og Andrew Sylvain Bernhardt, stjórnarmaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá félaginu, eru einnig á listanum. Óttar er númer sex og greiddi hann 142,7 milljónir meðan Bernhardt er númer 10 og greiddi 112,8 milljónir.

Ofarlega eftir sölu á hlut í Grayline

Þeir Þórir Garðarsson og Sigurdór Sigurðsson eru númer fjögur og fimm á listanum í ár, en þeir seldu tæplega helmingshlut í hópbifreiðafyrirtækinu Grayline á síðasta ári til Akurs fjárfestinga. Greiddu þeir 163,2 og 160,4 milljónir hvor.

Í sjöunda sæti yfir hæstu gjaldendur landsins er Valur Ragnarsson, en hann er í for­svari fyr­ir sam­eig­in­lega starf­semi Acta­vis á Íslandi, sam­hliða starfi sínu sem for­stjóri Med­is. Med­is er eitt af dótt­ur­fyr­ir­tækj­um Acta­vis plc og ann­ast sölu á lyfj­um og lyfja­hug­viti fyr­ir sam­stæðuna til annarra lyfja­fyr­ir­tækja. Valur greiddi 133,1 milljón í opinber gjöld á síðasta ári.

Stofnandi CCP í áttunda sæti

Sigurður Reynir Harðarson, einn stofnenda CCP og núverandi starfsmaður og einn stofnenda leikjafyrirtækisins Sólfars, er í áttunda sæti listans. Hann greiddi í fyrra 131,5 milljón í opinber gjöld.

Aðrir á listanum eru t.d. Jakob Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Promens og núverandi stjórnarformaður Creditinfo. Hann er í 11. sæti listans og greiddi 101,5 milljónir í opinber gjöld í fyrra.

Þorvaldur Ingvarsson er í 12. sæti listans, en hann er læknir og forstöðumaður rannsóknar og þróunar hjá Össuri. Í fyrra nýtti hann sér ákvæði í kaupréttarsamningi sínum og innleysti 105 milljóna hagnað af sölu á bréfum í Össuri.

Aðeins fjórir haldast á listanum milli ára

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar er í 15. Sæti listans með 84,5 milljónir í greidd opinber gjöld á síðasta ári. Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, fyrrverandi forstjóri Actavis á Íslandi er í 16. sæti með 83,5 milljónir og Grímur Karl Sæmundsson, forstjóri Bláa Lónsins er í því tuttugasta með 80,1 milljón sem hann greiddi í opinber gjöld á síðasta ári.

Aðeins fjórir af þeim tuttugu sem skipa listann voru á honum í fyrra. Þetta voru þau Árni Harðarson, Kristján Vilhelmsson, Kári Stefánsson og Grímur Karl Sæmundsson. Aðrir koma nýir inn á listann í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka