Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, er með hærri laun en forseti Íslands, samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar. Bæjarstjórinn er sagður með rúmar 2,3 milljónir króna í mánaðarlaun og er launahæsti sveitarstjórnarmaður landsins. Til samanburðar er Ólafur Ragnar Grímsson sagður með tæpar 2,3 milljónir króna í laun á mánuði.
Auk Gunnars er það aðeins Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs Fjarðarbyggðar og formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem nær yfir tvær milljónir króna í mánaðartekjur af sveitarstjórnarmönnum á lista Frjálsrar verslunar.
Fyrir neðan þá tvo kemur Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri Stykkishólms, með 1,9 milljónir króna í laun á mánuði, svo Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi í Kópavogi, með hátt í 1,8 milljónir, og Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, með tæpar 1,7 milljónir.
Í 6.-10. sæti listans eru svo þau Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness, Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, og Margrét Friðriksdóttir, forseti bæjarstjórnar Kópavogs, öll með á bilinu 1,5 til 1,6 milljónir króna á mánuði.
Í blaðinu er birtur listi yfir tekjur rúmlega 3.725 Íslendinga. Könnunin byggist á álögðu útsvari eins og það birtist í álagningarskrám. Frjáls verslun áréttar að í einhverjum tilvikum kann að vera að skattstjóri hafi áætlað tekjur.
Tekið er fram að um útvarsskyldar tekjur á árinu 2015 sé að ræða og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. „Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Jafnframt hafa margir tekið út séreignarsparnað en hann telst með í útsvarsskyldum tekjum.“