Kjararáð hækkaði laun um 7,15%

Samkvæmt úrskurði kjararáðs eru mánaðarlaun forseta Íslands nú tæpar 2,48 …
Samkvæmt úrskurði kjararáðs eru mánaðarlaun forseta Íslands nú tæpar 2,48 milljónir króna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Laun allra þeirra sem ákvörðunarvald kjararáðs nær til hækkuðu um 7,15% um síðustu mánaðamót samkvæmt ákvörðun ráðsins sem birt hefur verið á heimasíðu þess. 

Kjararáð er sjálfstætt ráð sem er falið það verkefni að ákveða laun og starfskjör æðstu embættismanna ríkisins. Í þeim hópi eru alþingismenn, ráðherrar, dómarar, ráðuneytisstjórar og skrifstofustjórar í Stjórnarráði Íslands, prestar, prófastar, saksóknarar, sendiherrar og forstöðumenn ríkisstofnana. Kjararáð ákveður einnig launakjör framkvæmdastjóra hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins og félaga sem eru að meiri hluta í eigu þeirra.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að eftir hækkunina er forseti Íslands með tæpar 2,5 milljónir króna í laun á mánuði. Þá eru mánaðarlaunlaun forsætisráðherra nú 1,6 milljónir og annarra ráðherra tæplega 1,5 milljónir.

Þá eru laun forstjóra Landsvirkjunar, Harðar Arnarson, nú rúmlega 2 milljónir króna. Laun forseta Hæstaréttar eru nánast þau sömu og laun Seðlabankastjóra rúmar 1,9 milljónir króna á mánuði. 

Í fréttum RÚV í gær kom fram að nú um mánaðamótin hækka laun ráðuneyt­is­stjóra um hátt í 40% samkvæmt úr­sk­urði kjararáðs. Laun skrif­stofu­stjóra hækka um 30%. 

Frétt mbl.is: Launin hækka um allt að 40%

Í lögum um kjararáð segir að ráðið skuli taka mál til meðferðar þegar því þyki þurfa og ætíð ef orðið hafa verulegar breytingar á þeim launum í þjóðfélaginu sem höfð skulu til viðmiðunar samkvæmt lögunum eða á störfum þeirra sem úrskurðarvald þess tekur til.

Samkvæmt úrskurði gerðardóms frá því í fyrra um launakjör 18 aðildarfélaga í Bandalagi háskólamanna (BHM) hækka laun þeirra um 5,5% frá 1. júní 2016. Að auki er kveðið á um 1,65% framlag til útfærslu menntunarákvæða úrskurðarins og eftir atvikum annarra þátta í stofnanasamningum. Með hliðsjón af framangreindu ákvað kjararáð að hækka laun þeirra sem ákvörðunarvald ráðsins nær til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert