Laun Guðna Th. Jóhannessonar, verðandi forseta, munu tæplega fjórfaldast þegar hann tekur við embætti forseta frá því sem þau voru í fyrra. Guðni var með 657 þúsund krónur í laun á mánuði samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í morgun, en mun hækka upp í 2.479 þúsund m.v. síðustu ákvörðun kjararáðs um laun forseta, ráðherra og þingmanna sem birt var í dag.
Guðni hefur starfað sem dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands undanfarin ár, auk þess að hafa skrifað fjölda bóka.
Í tekjublaðinu er birtur listi yfir tekjur rúmlega 3.725 Íslendinga. Könnunin byggist á álögðu útsvari eins og það birtist í álagningarskrám. Frjáls verslun áréttar að í einhverjum tilvikum kann að vera að skattstjóri hafi áætlað tekjur.
Í tekjublaði Frjálsrar verslunar er tekið fram að um útvarsskyldar tekjur á árinu 2015 sé að ræða og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. „Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Jafnframt hafa margir tekið út séreignarsparnað en hann telst með í útsvarsskyldum tekjum,“ segir í blaðinu.
Í nóvember á síðasta ári voru laun forseta hækkuð samkvæmt ákvörðun kjararáðs og námu þau þá 2.314.830 krónur, en samkvæmt ákvörðun ráðsins hækkuðu laun allra þeirra sem ákvörðunarvald ráðsins nær til um 7,15% frá og með deginum í dag. Það þýðir að þegar Guðni tekur við embætti í ágúst verða laun hans 2.479 þúsund krónur.