Samtökin '78 boða nýjan aðalfund

BDSM Ísland var tekið undir regnbogaregnhlíf Samtakanna '78 á aðalfundi …
BDSM Ísland var tekið undir regnbogaregnhlíf Samtakanna '78 á aðalfundi sem síðar var metinn ólögmætur, en ekki eru allir á eitt sáttir um hvort félagið eigi heima þar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Stjórn Samtakanna ‘78 og Velunnarar Samtakanna ‘78 hafa komist að samkomulagi um að boðað verði á ný til aðalfundar ársins 2016, þann 11. september nk. Þetta er niðurstaða sáttaviðræðna sem staðið hafa yfir undir handleiðslu Hafsteins Gunnars Hafsteinssonar, sáttamiðlara, að því er fram kemur á vef Samtakanna ‘78.

Undanfarna mánuði hafa geisað deilur í Samtökunum ‘78 er lúta að hagsmunaaðild félagsins BDSM á Íslandi og framkvæmd aðalfundar þess er haldinn var 5. mars síðastliðinn. Allstór hópur fólks hefur gengið úr félaginu í kjölfar þeirra deilna. Einnig hefur stór hópur skrifað undir áskorun til sitjandi stjórnar um að halda löglegan aðalfund og annar hópur hefur lýst yfir stuðningi við sitjandi stjórn.

„Þetta er staða sem forsvarsmenn félagsins telja óviðunandi. Eftirfarandi sáttatillögur eru hugsaðar af báðum aðilum til að leiða saman þessa hópa, sem eiga það sameiginlegt að vilja veg Samtakanna ‘78 sem mestan. Með þessu samkomulagi er ennfremur orðið við áskorun Velunnara Samtakanna ‘78 til stjórnar er afhent var 18. maí sl. og þeirra 128 félagsmanna er rituðu nafn sitt á hana. Stjórn Samtakanna ‘78 þykir leitt hversu langan tíma það hefur tekið að leita leiða til sátta og samkomulags,“ segir á vef samtakanna.

Þar segir jafnframt að samkomulagið feli í sér að undirbúningur fyrir aðalfund hefjist að nýju á upphafspunkti og að fulltrúar sitjandi stjórnar og fulltrúar Velunnara Samtakanna ‘78 muni sameiginlega standa að boðun og framkvæmd aðalfundar. Ákvarðanir fundanna 5. mars og 9. apríl séu ógildar.

Þá muni sitjandi stjórn og trúnaðarráð starfa áfram fram að aðalfundinum en stjórn hafi þó takmarkað umboð til að skuldbinda félagið, t.d. fjárhagslega til langs tíma. Komi upp sú ólíklega staða að stofna þurfi til slíkra skuldbindinga, verður þeim ákvörðunum skotið til félagsfundar.

Umsóknir um hagsmunaaðild skuli berast í tæka tíð til að hægt sé að staðfesta lögmæti þeirra, leiki vafi á því. Mælst er til þess að slíkar umsóknir berist a.m.k. mánuði fyrir aðalfund; að öðrum kosti sé ekki tryggt að unnt verði að meta lögmæti umsóknarinnar áður en fundarboð er sent út. Leiki vafi á hagsmunatengslum félags er sendir inn umsókn muni sáttamiðlari tilnefna óháðan lögmann til að leggja mat á lögmæti umsóknarinnar.

Hvorugur hópurinn stefni á að leggja lagabreytingartillögur fyrir fundinn, þótt öðrum sé frjálst að gera það, lögum samkvæmt. Kosningarétt á þessum aðalfundi hafi allir skráðir félagar sem greitt hafa félagsgjöld ársins 2016.

„Við vonum eindregið að þeir félagar sem hafa sagt sig úr félaginu undanfarna mánuði muni endurskoða þá ákvörðun, skrá sig aftur í félagið og taka þátt í aðalfundinum,“ segir í frétt Samtakanna ‘78.

Frétt mbl.is: Aðalfundur Samtakanna '78 ólögmætur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka