Leiguflug á vegum Vitaferða sem fljúga átti frá Keflavík til Parísar í gær þurfti að lenda í Amsterdam. Seinkun varð á fluginu vegna brunaviðvörunar í Leifsstöð í gær og ekki fékkst leyfi til lendingar í París.
Um var að ræða pakkaferð sem kostar 147.500 krónur á mann og innihélt beint flug til Parísar og til baka auk tveggja gistinátta á hóteli.
Vélin lenti laust eftir miðnætti að staðartíma í Amsterdam og var fólkið flutt með rútu frá Amsterdam til Parísar, sem er nokkurra klukkustunda ferðalag. Farþegar fengu matarpoka þegar í rútuna var komið sem búið var að undirbúa áður en haldið var af stað til Parísar.
Upprunalega átti vélin að lenda á Charles de Gaulle-flugvelli í París en fyrr í vikunni barst farþegum tölvupóstur frá ferðaskrifstofunni um að ekki yrði lent þar heldur á öðrum velli í um tveggja klukkustunda fjarlægð frá París þar sem ekki fengist þar lendingarleyfi eftir miðnætti.
„Við heyrðum það útundan okkur að við myndum ekki lenda í París heldur í Amsterdam, en við vissum ekki hvort það væri staðfest eða ekki,“ segir farþegi í samtali við mbl.is. Að sögn farþegans var þeim ekki tilkynnt um breyttan áfangastað fyrr en nokkrum mínútum fyrir lendingu. Kveðst hann hafa spurt flugfreyju hvort lent yrði í Amsterdam áður en það var tilkynnt, þá hafi komið á hana fát og hún sagt að þau kæmust til Parísar.
Farþeginn segist hafa fylgst vel með í hvert sinn sem flugfreyja talaði í tilkynningakerfið. „Hún passaði sig alltaf að segja að við værum að fara á „European Championship“, við værum að fara þangað, hún sagði aldrei áfangastað.
„Þegar það er korter í lendingu eða eitthvað slíkt er okkur tilkynnt í kallkerfinu að það hafi ekki fengist lendingarleyfi og því lent í Amsterdam og við tók átta tíma rútuferð eða eitthvað svoleiðis,“ segir farþeginn. Hann segir sig og sinn vinahóp hafa tekið þessu með nokkru jafnaðargeði en auðvitað séu margir pirraðir.
Rúturnar voru komnar til Parísar um klukkan 10 í morgun að staðartíma og verða farþegarnir því eflaust margir hverjir þreyttir á leiknum í kvöld.